Repúblikanar snerust gegn Trump

Donald Trump.
Donald Trump. AFP

Öldungadeild Banda­ríkjaþings samþykkti við at­kvæðagreiðslu í kvöld að af­nema neyðarástandið við landa­mæri lands­ins og Mexí­kó en áður hafði fulltrúadeildin greitt atkvæði með sama hætti.

Tólf þingmenn Repúblikanaflokksins kusu með demókrötum en alls kusu 59 með tillögunni en 41 var á móti. Repúblikanar eru í meirihluta í öldungadeild en demókratar í fulltrúadeild.

Fram kemur í frétt AFP að tveir þriðju þingmanna beggja þingdeilda þurfi að greiða atkvæði með frumvörpum svo forsetinn geti ekki beitt neitunarvaldinu en Trump lýsti því yfir á Twitter að hann muni beita neitunarvaldinu.

Trump lýsti yfir neyðarástandi á landa­mær­um Banda­ríkj­anna og Mexí­kó í þeim til­gangi að tryggja meira fjár­magn til mann­virkja­gerðar á landa­mær­um Banda­ríkj­anna og Mexí­kó um miðjan fe­brú­ar.

For­set­inn hafði áður samþykkt mála­miðlun­ar­til­lögu sem þing­menn úr báðum flokk­um stóðu að, þar sem demó­krat­ar féllust á að verja mætti tæp­lega 1,4 millj­örðum Banda­ríkja­dala í nýj­ar girðing­ar á landa­mær­un­um í stað þeirra 5,7 millj­arða sem Trump og re­públi­kan­ar vildu fá.

Um leið þýddi mála­miðlun­in að hluti banda­rískra rík­is­stofn­ana myndi áfram fá fjár­mögn­un og þær þyrftu því ekki að loka, líkt og þær gerðu í des­em­ber.

mbl.is