Ákærður fyrir 50 morð

AFP

Ástrali sem sakaður er um hryðjuverk í tveimur moskum í nýsjálensku borginni Christchurch  í síðasta mánuði verður ákærður fyrir 50 morð þegar hann verður leiddur fyrir dómara á morgun.

Hann hefur setið í gæsluvarðhaldi frá árásunum 15. mars ákærður fyrir eitt morð en nýjar ákærur verða lagðar fram á morgun. Hann verður að auki ákærður fyrir 39 morðtilraunir og væntanlega hryðjuverk, segir í tilkynningu frá yfirvöldum. Morðinginn verður ekki viðstaddur í dómssalnum í Christchurch á morgun heldur verður hann í mynd úr öryggisfangelsi í Auckland þar sem hann er í gæsluvarðhaldi. 

Hryðjuverkamaðurinn afþakkaði verjanda sem dómstóllinn tilnefndi þegar hann var fyrst leiddur fyrir dómara 16. mars og sagðist vilja verja sig sjálfur. Er talið að hann muni reyna að nýta sér réttarhöldin til þess að koma öfgaáróðri sínum á framfæri. 

Dómstóllinn hefur nú ákveðið að hryðjuverkamaðurinn þurfi ekki að tjá sig um ákæruna fyrir dómi og eins er fjölmiðlum óheimilt að birta myndir af honum.

AFP

Gæsluvarðhaldsfanginn er í einangrun og fylgst stöðugt með honum bæði beint af hálfu fangavarða og eins með öryggismyndavélum. Hann hefur ekki aðgang að sjónvarpi, útvarpi eða dagblöðum og allar heimsóknir eru bannaðar. 

Fjölmiðlar á Nýja-Sjálandi hafa greint frá því að ef hann verður dæmdur sekur verði honum væntanlega haldið í einangrun til langs tíma. Er það til þess að verja hann fyrir árásum annarra fanga. Ekki síst þeirra sem eru frá Pólýnesíu vegna rasískra viðhorfa hryðjuverkamannsins en hann trúir á ofurmátt hvíta kynstofnsins.

Enn eru 24 á sjúkrahúsi eftir árásina, þar af eru fjórir enn í lífshættu. Meðal annars fjögurra ára gömul stúlka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert