Staðfestir villu í MCAS-kerfinu

AFP

Forsvarsmenn bandaríska flugvélaframleiðandans Boeing segja að allt verði gert til þess að tryggja flugöryggi 737 Max en ítreka að þoturnar séu í grundvallaratriðum öruggar.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem gefin var út aðeins nokkrum klukkutímum eftir að yfirvöld í Eþíópíu greindu frá því að flugmenn 737 Max 8-þotu Ethiopian Airlines hafi gert allt sem í þeirra valdi stóð til þess að njá stjórn á þotunni. 

Í bráðabirgðaskýrslu flugslyssins kemur fram að verklagsferlum frá Boeing hafi verið fylgt en kerfið hafi ítrekað tekið yfir þegar flugmennirnir reyndu að handstýra flugvélinni. Allir um borð fórust, alls 157 manns. Í októ­ber fórst þota Lion Air, sem einnig var af 737 Max-gerð, og lét­ust all­ir um borð, alls 189 manns.

Forstjóri Boeing, Dennis Muilenburg, segir að forsvarsmenn fyrirtækisins beri fullt traust til öryggismála 737 Max og að þær breytingar sem verið væri að gera á öryggishugbúnaði þeirra myndi gera tegundina eina þá öruggustu í heiminum. 

Muilenburg staðfestir aftur á móti að villa hafi komið upp í MCAS-kerfinu í báðum flugslysunum en það teng­ist hæðar­stýri vél­ar­inn­ar. 

Á vefn­um Allt um flug seg­ir að MCAS-kerfið hafi verið þróað við hönn­un­ina á Boeing 737 MAX. „MCAS-kerf­inu var komið fyr­ir til að leiðrétta loft­flæðileg­ar breyt­ing­ar sem urðu á Boeing 737 MAX-þot­unni þar sem hreyfl­ar henn­ar eru bæði þyngri og staðsett­ir fram­ar á vængn­um sam­an­borið við Boeing 737NG sem hef­ur áhrif á massamiðju vél­ar­inn­ar og er ætlað að forða flug­vél­inni frá of­risi við aukið áfalls­horn en áfalls­horn eykst á öll­um flug­vél­um til að mynda í flug­taki.

MCAS-kerfið fer í gang þegar sjálfs­stýr­ing vél­ar­inn­ar er ekki virk og væng­börð eru uppi og reiðir MCAS-kerfið sig á upp­lýs­ing­ar sem koma frá áfalls­horns­skynj­ur­um. Ef skynj­ar­arn­ir greina að nef vél­ar­inn­ar sé farið að vísa óeðli­lega mikið upp á við þá senda þeir boð til MCAS-kerf­is­ins um að leiðrétta með því að ýta hæðar­stýr­inu niður sem dreg­ur úr halla vél­ar­inn­ar um þver­ás­inn,“ seg­ir í frétt á vefn­um Allt um flug.

Í Washington Post í gær kom fram að flugmálayfirvöld í Bandaríkjunum hafi fyrirskipað Boeing að laga galla í flugstjórnarbúnaði þotunnar en sá búnaður tengist ekki MCAS. Vegna þessa hafi tímaáætlun Boeing um hvenær vélarnar megi hefja sig á loft að nýju verið frestað. 

Samkvæmt tilkynningu Boeing er aðeins um smávægilegan galla að ræða og lausn hans sé þegar fundin. 

Frétt Washington Post

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert