Súdanar mótmæla enn herstjórninni

Margir Súdanar fögnuðu yfirlýsingu nýs leiðtoga herstjórnarinnar í dag. Herstjórninni …
Margir Súdanar fögnuðu yfirlýsingu nýs leiðtoga herstjórnarinnar í dag. Herstjórninni er þó mótmælt víða um landið, en mótmælendur krefjast borgarlegrar stjórnar. AFP

Abdel Fattah al-Burhan, ofursti og nýr leiðtogi herráðsins í Súdan, hét því í dag að leysa upp einræðisstjórn Omars al-Bashir, fyrrverandi forseta landsins, sem handtekinn var í fyrradag þegar her landsins tók yfir stjórn þess. Lofaði Burhan því að leysa úr haldi mótmælendur til þess að róa þá landsmenn sem krafist hefðu borgaralegrar stjórnar í landinu. 

„Ég tilkynni hér með endurreisn stofnana ríkisins samkvæmt lögum og heiti því að berjast gegn spillingu og leysa upp einræðisstjórnina og öll merki um hana,“ sagði Burhan sem tók við stjórninni af Awad Ibn Ouf, varnarmálaráðherra í stjórn Bashir, sem steig til hliðar eftir að hafa verið leiðtogi herstjórnarinnar í u.þ.b. sólarhring. Burhan hét því einnig að þeir einstaklingar sem hefðu átt þátt í morðum á mótmælendum yrðu sóttir til saka. 

Ouf naut lítils stuðnings mótmælenda þegar hann tók við stjórninni, m.a. vegna tengsla sinna við forsetann fyrrverandi og þátttöku í kúgun minnihlutahópa í Darfur-héraði. Burhan hefur minni tengsl við valdatíð Bashirs, en þrátt fyrir mikinn fögnuð þegar Ouf steig úr stóli sínum, krefjast mótmælendur þess enn að stjórn almennra borgara verði komið á í landinu og hafa komið sér fyrir við bækistöðvar hersins. Herstjórnin hefur sagst standa með þjóðinni.

Tugir hafa látist í mótmælunum í Súdan sem staðið hafa frá því í desember og þúsundir aðgerðasinna, stjórnarandstæðinga og blaðamanna verið handteknar undanfarna daga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert