Engin eftirför þar sem líkið fannst

Lögreglubíll keyrir framhjá Columbine-menntaskólanum í dag.
Lögreglubíll keyrir framhjá Columbine-menntaskólanum í dag. AFP

Talið er að bandaríska konan, sem var sögð haldin þráhyggju vegna skotárásarinnar í Columbine-menntaskólanum árið 1999 og fannst látin í dag, hafi fallið fyrir eigin hendi.

Bandaríska alríkislögreglan, FBI, hafði leitað að henni vegna þess að ógn var talin stafa af henni. Hún hafði ferðast frá Flórída til Colorado þar sem hún keypti haglabyssu og skotfæri.

Fulltrúar FBI fundu lík Sol Pais, sem var 18 ára, við fjallsrætur Mount Evans skammt frá borginni Denver.  

Jeff Shrader, lögreglustjóri í Jefferson-sýslu, sagði á blaðamannafundi að rannsókn á vettvangi stæði yfir og enn ætti eftir að skera úr um ýmislegt. „Við teljum ekki að lögreglan hafi verið að veita henni eftirför á svæðinu þar sem hún fannst látin,“ sagði hann.

Paris var ekki fædd þegar tveir nemendur við Columbine-skólann skutu 12 samnemendur sína til bana, ásamt kennara, áður en þeir frömdu sjálfsvíg. Á laugardag verða 20 ár liðin frá árásinni.

Yfirvöld í Colorado fyrirskipuðu í dag um hálfri milljón nemenda í ríkinu að halda sig heima við af öryggisástæðum eftir að fregnir bárust af leit lögreglunnar að Pais.  

Sol Pais.
Sol Pais. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert