Vilja kæra Trump fyrir embættisbrot

Elizabeth Warren, öldugadeildarþingmaður Demókrataflokksins og frambjóðandi í forvali flokksins vegna …
Elizabeth Warren, öldugadeildarþingmaður Demókrataflokksins og frambjóðandi í forvali flokksins vegna forsetakosninganna á næsta ári. AFP

Demókratar á Bandaríkjaþingi kölluðu eftir því í dag að hafin yrði vinna að kæru á hendur Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, fyrir embættisbrot í kjölfar skýrslu sérstaka saksóknarans Roberts Mueller þar sem fram kemur að ekki hafi fundist sannanir fyrir því að Trump hafi átt í samstarfi við stjórnvöld í Rússlandi í afskiptum þeirra af  forsetakosningunum 2016. Hins vegar hafi hann tekið þeim afskiptum fagnandi og ennfremur reynt ítrekað að koma í veg fyrir rannsókn Muellers.

Elizabeth Warren, öldungadeildarþingmaður Demókrataflokksins fyrir Massachusetts-ríki sem hefur gefið kost á sér sem frambjóðandi flokksins í forsetakosningunum á næsta ári, sagði á Twitter-síðu sinni í dag að ljóst væri af skýrslu Mueller að fjandsamleg, erlend ríkisstjórn, það er ríkissthjórn Rússlands, hefði beitt sér í forsetakosningunum 2016 í þeim tilgangi að aðstoða Trump og Trump hefði fagnað þeirri aðstoð. Þegar Trump hefði síðan náð kjör hefði hann reynt að koma í veg fyrir rannsókn á þeim afskiptum.

Trump fagnaði upphaflega skýrslu Muellers þar sem ekki hafi verið sýnt fram á samstarf við rússnesk stjórnvöld. Hins vegar sagði hann skýrsluna í dag vera bull og vísaði þar í þann hluta skýrslunnar þar sem segir að forsetinn hafi reynt að koma í veg fyrir að afskipti ráðamanna í Rússlandi af forsetakosningunum 2016 yrðu rannsökuð. Trump kallaði skýrsluna þannig á Twitter í morgun „klikkuðu Mueller-skýrsluna“ sem væri rituð af „höturum“ og uppfull af fullyrðingum sem væru „skáldaðar og algerlega ósannar.“

Mueller hefur sagt að vegna reglna frá dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna gæti hann ekki ákært Trump fyrir að reyna að hindra framgang réttvísinnar. Hins vegar benti hann á tíu atvik þar sem forsetinn hefði stigið skref í þá átt. Fyrir vikið sagðist Mueller ekki geta hreinsað Trump af ásökunum í hans garð. Demókratar hafa túlkað ummæli Muellers á þann veg að boltinn væri hjá þeim að ákæra Trump á vettvangi Bandaríkjaþings. Hins vegar er talið mjög ólíklegt að hægt verði að koma forsetanum úr embætti með þeim hætti þar sem repúblikanar hafa meirihluta þingmanna í öldungadeild þingsins.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina