„Við viljum að fólk taki prófið“

Hér varð sem betur fer ekki banaslys þegar bátur sigldi …
Hér varð sem betur fer ekki banaslys þegar bátur sigldi upp í land við Skrøslingen út af Nøtterøy í Vestfold í fyrra. Fjögurra manna áhöfn var bjargað óskaddaðri í land. Frode Pedersen vill að fólk taki próf á bátana og hætti að treysta alfarið á siglingatæki sín. Ljósmynd/Redningsselskapet

„Þessir bátar eru orðnir mun stærri og hraðskreiðari en hér áður fyrr og umferðin á Óslóarfirðinum hefur margfaldast. Það á reyndar við um allt landið, þú þarft að kunna að sigla hvort sem þú kemur frá Norður- eða Suður-Noregi og við viljum að fólk taki próf á þessa báta.“

Þetta segir Frode Pedersen, formaður Björgunarsveitar Óslóar (n. Redningsselskapet), í samtali við mbl.is í dag en tilefnið er töluverð fjölgun slysa, þar á meðal banaslysa, meðal stjórnenda norskra frístundabáta en umferð þeirra er umtalsverð víða í Noregi eins og mbl.is greindi frá nú rétt fyrir páskana þegar maður, sem grunaður er um ölvun við siglingar, sigldi fleyi sínu tíu metra upp á land á eyju skammt frá Tønsberg í Suður-Noregi.

Segir Pedersen orðið allt of mikið um að fólk leggi allt sitt traust á ýmsa rafræna hjálparkokka, svo sem tækið Kartplotter sem meðal annars framleiðandinn Garmin selur. „Þú þarft próf til að aka vespu sem nær 40 km hraða, nú viljum við að fólk taki próf á þessa báta,“ segir Pedersen en samkvæmt norskum lögum þarf fólk sem fætt er fyrir 1. janúar 1980 ekki að taka sérstakt próf til að stjórna bátum styttri en átta metrar og með vélarafl undir 25 hestöflum.

Prófið má taka á einni helgi, í tveimur 12 klukkustunda kennslulotum, og er þar meðal annars kenndur kortalestur, þýðing mismunandi litra ljósa frá vitum, gerð siglingaáætlana auk þess sem ítarlega er farið í umferðarreglur á sjó og öryggismál sjófarenda. Sá sem hér skrifar tók prófið árið 2014 en hefur reyndar lítið siglt síðan.

Sextán látnir til sjós á fyrsta fjórðungi ársins

Pedersen vísar í tölfræði sem Redningsselskapet gefur út tíunda dag hvers mánaðar og bendir á að 16 sjófarendur hafi látist af slysförum á sjó fyrsta fjórðung ársins 2019. „Fólk verður að líta upp úr þessum tækjum, Kartplotter veit hvar öll varasöm sker eru staðsett en það sér ekki önnur sjóför,“ segir Pedersen og vísar til fjölgunar árekstra milli báta á meðan stjórnendur þeirra sitji með nefið ofan í skjánum.

Flest hafa dauðsföllin verið í fylkjum vesturstrandarinnar, svo sem í Rogalandi þar sem sex drukknuðu fyrstu þrjá mánuði ársins, þrír í Hörðalandi og tveir í Mæri og Raumsdal.

Pedersen hrósar sjófarendum fyrir stóraukna notkun björgunarvesta sem yfirvöld hömruðu á árum saman en flest banaslysin til sjós í Noregi hafa orðið þegar fólk fellur útbyrðis og sundhæfileikarnir reynast ekki eins og talið var.

„Tómstundabátaprófið er orðið mun öflugra en það var áður, nú viljum við að fólk taki prófið og fari að nota augun úti sjó,“ segir Pedersen að skilnaði og býður gleðilega páska á láði og legi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert