Óvissa ríkir um dýrasta listaverk sögunnar

Þess er minnst með ýmsu móti á árinu að 500 ár eru liðin frá andláti ítalska meistarans Leonardo da Vinci. Sergio Mattarella, forseti Ítalíu, og Emmanuel Macron, forseti Frakklands, ætla þannig í dag að ferðast saman til Loire-dalsins í Frakklandi þar sem da Vinci lést 2. maí árið 1519, 67 ára að aldri.

AFP

Síðar á þessu ári verður haldin mikil sýning í Louvre-safninu í París þar sem mörg af helstu verkum da Vincis, bæði þau sem eru í eigu safnsins og annarra, verða til sýnis. En óvíst er að það málverk eignað honum, sem hvað mest hefur verið fjallað um á undanförnum mánuðum, verði meðal sýningargripanna.

AFP

Málverkið Salvator Mundi var selt á uppboði hjá Christie's í Lundúnum í nóvember árið 2017 fyrir 450 milljónir dala, jafnvirði 55 milljarða króna. Er það hæsta verð sem greitt hefur verið fyrir listaverk á uppboði. En verkið hefur ekki sést opinberlega síðan og óljóst er hver á það, hvar það er niðurkomið og hvort það er í raun eftir da Vinci.

Til stóð að málverkið, sem er andlitsmynd af Jesú, yrði sýnt í listasafninu Louvre Abu Dhabi í Sameinuðu arabísku furstadæmunum í september í fyrra. En af því varð ekki og engar skýringar voru gefnar. Forsvarsmenn Louvre Abu Dhabi hafa ekki upplýst hver eigandi verksins er og aðeins sagt að menningar- og ferðamálaráðuneyti furstadæmisins hafi eignast það.

AFP

Nú hefur talsmaður Louvre-safnsins í París upplýst að óskað hafi verið eftir því við umrætt ráðuneyti að málverkið yrði lánað á sýninguna í Louvre í haust en ekkert svar hafi borist.

Er krónprinsinn eigandinn?

Bandaríska blaðið Wall Street Journal hefur sagt fréttir af því að sádiarabískur prins, Badr ben Abdallah, hafi keypt málverkið á uppboðinu fyrir Mohammed bin Salman, krónprins Sádi-Arabíu og valdamesta manninn þar í landi. Mohammed, sem oft er nefndur MBS, hefur hvorki játað né neitað þessum fréttum. Samband Sádi-Arabíu og Sameinuðu arabísku furstadæmanna er náið og bæði taka ríkin þátt í hernaðaraðgerðum gegn uppreisnarmönnum í Jemen. MBS er einnig sagður trúnaðarvinur Mohameds bin Zayed, krónprins Sameinuðu arabísku furstadæmanna, sem opnaði Louvre Abu Dhabi-listasafnið formlega árið 2017 ásamt Emmanuel Macron. Þetta listasafn er það fyrsta utan Frakklands sem fær að nota nafn franska Louvre-safnsins.

AFP
AFP
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert