Kexerfingi biðst afsökunar

Verena Bahlsen segist vera kapítalisti og segir að það sé …
Verena Bahlsen segist vera kapítalisti og segir að það sé frábært að eiga hlut í kexverksmiðju enda langi hana í skútu. AFP

Erfingi þýskrar kexverksmiðju hefur beðist afsökunar á ummælum sínum um helförina en hún lét hafa eftir sér nýverið að ekkert athugavert hafi verið við það af hálfu fyrirtækisins að nýta sér nauðungarvinnu í valdatíð nasista.

Verena Bahlsen, sem er 25 ára, á fjórðungshlut í kexverksmiðjunni sem meðal annars framleiðir Choco Leibniz. Eftir að hafa verið gagnrýnd harkalega fyrir ummælin sem hún lét falla í viðtali hefur hún viðurkennt að ummælin hafi verið óviðeigandi. Fyrirtækið segir að ummælin sem Bahlsen lét falla séu hennar ekki fyrirtækisins. 

„Það voru mistök að magna upp þessa umræðu með þessum vanhugsuðu viðbrögðum,“ segir í yfirlýsingu frá Verena Bahlsen.

Um 200 starfsmenn Bahlsen á árunum 1943 og 1945 voru í nauðungarvinnu þar en flestir þeirra voru úkraínskar konur sem sendar voru í nauðgunarvinnu eftir hernám nasista.  

Allt hófst þetta með ummælum Bahlsen á markaðsráðstefnu: „Ég er auðvaldssinni. Ég á fjórðungshlut í Bahlsen og það er frábært. Mig langar til þess að kaupa skútu og álíka hluti.“

Frétt BBC

Þrátt fyrir að þýska blaðið Handelsblatt hafi greint frá því að áheyrendur hafi klappað og hlegið með henni þá var ekki hið sama uppi á teningnum á samfélagsmiðlum. Þar var hún sökuð um að vera einföld og að gera sér ekki grein fyrir forsögu fyrirtækisins. 

Þegar hún var spurð út í gagnrýnina af Bild sagði hún að þetta hafi verið fyrir hennar tíma og að fyrirtækið hafi greitt fólki í nauðungarvinnu jafn hátt kaup og þýskum starfsmönnum. Framkoma fyrirtækisins í þeirra garð hafi verið góð og engin ástæða væri til þess að fyrirtækið skammist sín fyrir fortíð sína. 

Verena Bahlsen var mjög gagnrýnd fyrir ummæli sín og að þau bæru merki um fáfræði hennar á sögu Þýskalands. Hún viðurkennir að svo sé og að það sé sennilega tímabært fyrir hana að lesa sér betur til.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert