Hið fullkomna ástarbréf

Stórstjörnurnar Leonardo DiCaprio og Brad Pitt í hlutverkum sínum í …
Stórstjörnurnar Leonardo DiCaprio og Brad Pitt í hlutverkum sínum í kvikmyndinni Once Upon a Time in Hollywood. Sá fyrrnefndi leikur sjónvarpsvestrastjörnu á hraðri niðurleið og Pitt er besti vinur hans og staðgengill í áhættuatriðum. onceuponatimeinhollywood.movie

„Og, hafi ykkur ekki þegar verið það ljóst, þá ann Tarantino Hollywood og þess vegna er þetta hið fullkomna ástarbréf frá honum.“

Þannig kemst Gregory Ellwood, kvikmyndagagnrýnandi vefmiðilsins Collider, að orði í umsögn sinni um nýjustu mynd Quentins Tarantinos, Once Upon a Time in Hollywood, sem forsýnd var á kvikmyndahátíðinni í Cannes í vikunni. Ellwood gefur myndinni A í einkunn, en gætir þess að fara ekki of ítarlega í söguþráðinn, að beiðni leikstjórans sjálfs, enda verður myndin ekki frumsýnd fyrr en 26. júlí í Bandaríkjunum og 14. ágúst í Bretlandi. Óþarfi að spilla upplifuninni fyrir bíógestum.

„Okkur dettur ekki í hug að halda því fram að Once Upon sé ekki enn ein Tarantino-myndin sem leikur sér að því að endurskoða söguna. Sú staðreynd að Rick býr við hliðina á Polanski og Tate staðfestir það mjög snemma. Samt er þetta önnur Ella. Ólíkt Inglourious Basterds og Django Unchained er það sem á sér stað í Once Upon ekki sett fram í samhengi hefndar eða siðferðislegs réttlætis. Tarantino fæddist árið 1963 og óx að mestu úr grasi í Los Angeles. Hann var ekki nema sex ára gamall þetta örlagaríka kvöld en veit eigi að síður hvernig það sem þá gerðist hefur spillt sýn margra á Hollywood allar götur síðan. Gervisakleysið sem stóru myndversmaskínurnar héldu vandlega utan um hafði verið á hröðu undanhaldi en glataðist í eitt skipti fyrir öll þetta kvöld.“

McQueen forfallaðist

Já, það var ekkert venjulegt kvöld, 8. ágúst 1969, þegar nokkur handbendi költleiðtogans Charles Mansons myrtu leikkonuna Sharon Tate og þrjá vini hennar á heimili hennar og eiginmanns hennar, kvikmyndaleikstjórans Romans Polanskis, sem var staddur erlendis. Ástralska leikkonan Margot Robbie fer með hlutverk Tate í myndinni en í aðalhlutverkum eru Leonardo DiCaprio, sem leikur téðan Rick, sjónvarpsvestrastjörnu sem á undir högg að sækja, og Brad Pitt, sem fer með hlutverk áhættuleikarans hans og besta vinar, Cliff að nafni.

Damon Herriman leikur Manson og Damian Lewis goðsögnina Steve McQueen, sem boðið hafði verið í mat á heimili Tate þetta kvöld en komst ekki. Af öðrum leikurum sem koma fram í Once Upon má nefna Kurt Russell, Al Pacino, Dakota Fanning og Luke Perry sem sálaðist í vor. Þetta verður síðasta myndin sem hann kemur fram í.
Og það eru fleiri en Collider sem halda ekki vatni yfir Once Upon a Time in Hollywood; bresku blöðin The Guardian og The Telegraph gefa myndinni líka hæstu einkunn, fimm stjörnur af fimm mögulegum.

Peter Bradshaw, gagnrýnandi The Guardian, segir að enginn með rautt blóð í æðum geti komist hjá því að heillast af snilligáfu Tarantinos og kastast af kæti milli veggja í kvikmyndahúsunum yfir kómíkinni í myndinni en ekki síður skekjast yfir hryllingnum og grimmdinni og eftirmálum ódæðisins.

Nánar er fjallað um Once Upon a Time in Hollywood í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Margot Robbie leikur Sharon heitna Tate sem býr við hliðina …
Margot Robbie leikur Sharon heitna Tate sem býr við hliðina á söguhetjunni. Hálf öld verður í sumar liðin frá því að leikkonan var myrt á hrottafenginn hátt. onceuponatimeinhollywood.movie
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert