Í lífshættu eftir amfetamínát

Dexter var hætt kominn eftir að hann komst í amfetamín …
Dexter var hætt kominn eftir að hann komst í amfetamín úti á götu í Lófóten og neytti efnisins. Annar eigenda hans, Christin Straum Jakobsen, segir þau hafa þóst þess fullviss að þau væru að missa dýrið og hafi verið búin að kveðja. Dexter komst þó til heilsu með dyggri hjálp dýralæknis. Ljósmynd/Úr einkasafni.

„Við tókum ekki eftir neinu í fyrstu, en eftir að heim var komið fór hann að svima, stóð varla í afturfæturna og slagaði til og frá. Við fórum með hann til dýralæknisins sem staðfesti við okkur að hann hefði orðið fyrir eitrun.“

Svona lýsir Christin Straum Jakobsen, annar eigenda hundsins Dexters, fimm og hálfs árs gamals gullinsækis (Golden Retriever) í Lófóten í Norður-Noregi, ástandi ferfætlingsins á heimilinu eftir að maður hennar, Benjamin, hafði tekið dýrið með sér í vinnuna í Flakstad á miðvikudaginn í síðustu viku. Dexter hljóp stundarkorn eitthvað frá Benjamin sem sá þó til hans álengdar þar sem hundurinn át eitthvað upp af götunni áður en hann sneri til baka.

Það er dagblaðið VG sem ræðir við Jakobsen, en staðarblaðið Lofot-Tidende, sem rekur læsta fréttadagskrá, greindi fyrst frá málinu.

„Vorum búin að kveðja hann“

Dýralæknirinn tók þvagprufu úr Dexter og tveimur dögum síðar barst óyggjandi niðurstaða um eitrunarástand hans. Hundurinn hafði étið amfetamín úti á götu og orðið fárveikur. Á tímabili þóttu jafnvel allar líkur á að sól annars heims væri að rísa yfir hann.

„Við vorum búin að kveðja, við vorum handviss um að við værum að missa hann. Það er á hreinu að hann fær ekki að hnusa eftirlitslaust úti á götu hér eftir,“ segir Jakobsen.

Undir dýralæknis höndum komst Dexter þó til heilsu og er nú orðinn eins og hann á að sér á ný. Mun hann þó heimsækja lækninn aftur til frekara eftirlits. Norska ríkisútvarpið NRK hefur eftir Jakobsen gegnum Lofot-Tidende að óskiljanlegt sé að svona nokkuð gerist í litla Lófóten.

Hún segist hafa orðið hvort tveggja felmtri slegin og reið, ótækt sé að fólk hendi frá sér fíkniefnum þannig að þau liggi börnum og hröfnum að leik.

Meðhöndlun fari eftir magni og tegund

NRK ræðir við Hanne Myrnes, dýralækni við Evidensia Bodø-dýraspítalann, sem segir öll fíkniefni geta reynst dýrum banvæn og geti þá skilið milli feigs og ófeigs að dýrinu sé komið sem fyrst undir læknis hendur. „Sé stutt síðan [dýr fékk í sig efni] er um að gera að reyna að tæma magann með því að framkalla uppköst. Séu áhrif efnisins hins vegar þegar komin fram getur reynst hættulegt að reyna það,“ útskýrir Myrnes.

Hún segir meðhöndlun svo fara eftir magni og tegund efnisins sem um ræðir og því hvort móteitur sé til við því. Hún segist sjálf hafa upplifað að á hennar spítala hafi komið hundar sem fengið hafi í sig fíkniefni.

„Til dæmis þegar eigandinn hefur verið í heimsókn hjá öðrum með hundinn. Hundar eru gjarnir á að þefa í umhverfi sínu og éta þá stundum það sem fyrir verður,“ segir Myrnes.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert