Mótmæla undirlægjuhætti í garð Rússa

Mótmælendur veifa fána Georgíu, Evrópusambandsins og Nató fyrir utan þinghúsið …
Mótmælendur veifa fána Georgíu, Evrópusambandsins og Nató fyrir utan þinghúsið í Tíblisi til að mótmæla rússneskum stjórnvöldum og því að erindreka þeirra hafi verið boðið að ávarpa þingheim. AFP

Mikil mótmæli hafa geisað í Georgíu frá í gær eftir að Sergei Gavrilov, þingmaður rússneska kommúnistaflokksins, fékk að ávarpa georgíska þjóðþingið á þingi rétttrúnaðarríkja sem fram fer í Georgíu um þessar mundir.

Una Sighvatsdóttir er útsendur friðargæsluliði á vegum utanríkisráðuneytisins hjá skrifstofu Nató í Georgíu. Hún segir óeirðirnar núna þær mestu í landinu í áraraðir og að margir Georgíumenn séu sorgmæddir og reiðir með ástand mála enda bakslag í þróun landsins í átt að uppbyggingu sterks lýðræðisríkis.

Þeir líti á opinbera heimsókn Gavrilov sem undirlægjuhátt í garð Rússa. Jafnframt telji margir Georgíumenn að uppþot og öngþveiti líkt og nú ríki þjóni fyrst og fremst hagsmunum Rússa, enda sé vesturvæðing landsins þyrnir í þeirra augum.

Reiði Georgíubúa er ekki síst vegna ummæla sem Gavrilov lét falla í samtali við fréttamenn, þar sem hann lýsti Georgíu, sem áður var undir hæl Sovétmanna, sem heimalandi sínu.

Þá er hann sagður hafa tekið þátt í Abkasíustríðinu sem stóð frá 1992-93 þar sem Rússar hertóku héraðið Abkasíu í Georgíu og stofnuðu þar sjálfstætt lýðveldi, sem er ólöglegt samkvæmt alþjóðalögum og aðeins viðurkennt af fimm ríkjum heims, þeirra á meðal Rússlandi, Sýrlandi og Venesúela.

Sjálfur hefur Gavrilov lýst því yfir að það séu falsfréttir, hann hafi aldrei tekið þátt í hernaði.

Una Sighvatsdóttir er friðargæsluliði utanríkisráðuneytisins í Tíblisi.
Una Sighvatsdóttir er friðargæsluliði utanríkisráðuneytisins í Tíblisi. Ljósmynd/Aðsend

Bakslag í lýðræðisþróun landsins

Miklar framfarir hafa orðið í landinu á undanförnum árum en bæði stjórnvöld og stjórnarandstaða eru einhuga um vesturvæðingu ríkisins, sem hefur sótt um aðild að bæði Evrópusambandinu og Nató. Una kom sjálf til landsins í fyrra í fyrsta sinn, en segir að aðrir sem snúi aftur til landsins eftir langa fjarveru lýsi ótrúlegum breytingum. Georgía sé almennt mjög öruggt ríki og henni líði vel.

Una segir að svo virðist sem um hugsunarleysi georgískra stjórnvalda hafi verið að ræða er þingmanninum var boðið að ávarpa þingheim. Fleiri hafi tekið það óstinnt upp, svo sem sendiherra Úkraínu gagnvart Georgíu sem yfirgaf þingið er Gavrilov var í pontu, enda hafi Úkraínumenn svipaða reynslu af innrásum Rússa.

Reiði Georgíubúa er ekki síst vegna ummæla sem Gavrilov lét …
Reiði Georgíubúa er ekki síst vegna ummæla sem Gavrilov lét falla í samtali við fréttamenn, þar sem hann lýsti Georgíu, sem áður var undir hæl Sovétmanna, sem heimalandi sínu. AFP

Að sögn Unu fóru mótmælin að mestu friðsamlega fram framan af gærdegi, og hafi margt fólk til að mynda mætt á mótmælin með börn sín. Upp úr miðnætti hafi þó soðið upp úr og einhverjir mótmælendur reynt að brjóta sér leið inn í þinghúsið. Lögregla beitti táragasi og skaut gúmmíkúlum að mótmælendum, og þykir hafa farið fram með of miklu offorsi. Margir eru særðir og tveir eru blindir á öðru auga eftir atburði næturinnar.

Forseti georgíska þingsins sagði af sér í morgun og verður að koma í ljós hvort það lægi mótmælaölduna. Áframhaldandi mótmæli séu þó boðuð í dag.

Una er á samningi hjá utanríkisráðuneytinu til tveggja ára og er einu ári lokið. Hún kemur til Íslands í næstu viku í sumarfrí en snýr svo aftur til Georgíu í ágúst og verður einn vetur enn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert