Öflugur jarðskjálfti í Indónesíu

Skjálftinn varð austur af Indónesíu og fannst vel í Ástralíu. …
Skjálftinn varð austur af Indónesíu og fannst vel í Ástralíu. Ekki er talin hætta á flóðbylgju í kjölfarið. Ljósmynd/Twitter

Jarðskjálfti, 7,3 að stærð, varð austur af Indónesíu í nótt. Engin flóðbylgjuviðvörun hefur verið gefin út í kjölfar skjálftans, að því er Veðurstofa Ástralíu greinir frá. Upptök skjálftans voru á um 200 kílómetra dýpi suður af eyjunni Ambor um hádegi að staðartíma. Ekki er vitað til þess að fólk hafi slasast í skjálftanum.

Skjálftinn fannst víða, allt frá Balí til Ástralíu. Skjálftinn fannst til að mynda afar vel í borginni Darwin í norðurhluta Ástralíu þar sem fjöldi fólks þurfti að flýja úr skrifstofubyggingum og voru nokkrir staðir í miðborginni rýmdir. Darwin er í um 700 km fjarlægð frá upptökum skjálftans.

„Ég sá jörðina hristast“

Íbúar í Dili, höfuðborg Austur-Tímor, fundu sömuleiðis vel fyrir skjálftanum. „Ég va í áfalli. Fólk hljóp um öskrandi,“ segir Agida dos Santos í samtali við AFP-fréttastofuna. „Ég sá jörðina hristast, það var mjög ógnvekjandi,“ segir annar íbúi í Dili.  

Nokkrum klukkustundum áður varð annar skjálfti, 6,1 að stærð, nærri Papúa. Upptök hans voru um 240 kílómetra vestur af bænum Abepura, á um 21 kílómetra dýpi. Skömmu eftir skjálftann í Indónesíu varð annar skjálfti í Papúa, 5,6 að stærð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert