Fangaeyjan sem aldrei varð

Ljósmynd/Wikipedia

Ný ríkisstjórn Sósíaldemókrata í Danmörku mun leggja niður umdeild áform fyrri stjórnar um að koma upp flóttamannabúðum á eyjunni Lindholm í Vordingborg utan stranda Sjálands.

Til stóð að eyjan myndi hýsa flóttamenn sem gerst hafa brotlegir við lög, allt frá morðum og nauðgunum til smáglæpa. Átti fangaeyjan að fá sitt nýja hlutverk árið 2021, og hafði fjármunum til undirbúnings þegar verið úthlutað í fjárlagafrumvarpi ársins í ár. Áætlaður kostnaður við uppsetninguna var 759 milljónir danskra króna (rúmir 14 milljarðar íslenskra) og er þá ótalinn árlegur kostnaður við uppihald búðanna, eftir að þær yrðu teknar í gagnið.

Eyjaskeggjar áttu að hafa ferðaleyfi á daginn, en vera skikkaðir til að halda til á eyjunni á kvöldin og nóttunni. Sósíaldemókratar sátu á sínum tíma hjá við atkvæðagreiðsluna í þinginu.

Áætlunin mætti mikilli mótspyrnu úr mörgum áttum. Bæjarstjóri Vordingborgar, næsta bæjar á Sjálandi hvers sveitarfélagi eyjan tilheyrir, sagði áður en kosið var um áformin í danska þinginu í fyrra að íbúar teldu hugmyndina ekki vera lausn á raunverulegum vandamálum.

Eyjan hefur um áratugaskeið nýst Danska tækniháskólanum (DTU) við rannsóknir á veirum sem taldar eru geta skaðað danskan búfjárstofn og frá 1933 hefur þar verið framleiðsla á bóluefni gegn gin- og klaufaveiki. Mótmælti því háskólinn hugmyndinni, og sagði viðbúið að eitthvað af þessari starfsemi flyttist úr landi, yrðu áformin að veruleika.

Flóttabörn í Danmörku að leik.
Flóttabörn í Danmörku að leik. Ljósmynd/Rauði kross Danmerkur

 

Eru óvelkomnir og skal líða þannig

Mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna, Michelle Bachelet, sem áður var forseti Síle, lýsti yfir þungum áhyggjum af hugmyndinni í samtali við blaðamenn í Genf í desember í fyrra. „Við höfum séð neikvæðar afleiðingar slíkra áforma áður og [Danir] ættu ekki að endurtaka þær. Að svipta þá [flóttamennina] frelsinu, einangra þá og útskúfa mun aðeins auka á varnarleysi þeirra.“

Inger Støjberg, fráfarandi ráðherra innflytjendamála og þingkona hægriflokksins Venstre, hafði áður látið hafa eftir sér á Facebook að umræddir afbrotamenn væru óvelkomnir í Danmörku og þeim skyldi líða þannig.

Ströng innflytjendalöggjöf, en þó dregið í land 

Sósíaldemókratar gengu til kosninga með loforð um að viðhalda strangri innflytjendastefnu, sem innleidd var í áföngum af síðustu ríkisstjórn, ekki síst að undirlagi stuðninsflokks hennar, Danska þjóðarflokksins. Ljóst er þó að með áætluninni er að einhverju leyti dregið í land í þeim efnum.

Mette Frederiksen, tilvonandi forsætisráðherra Sósíaldemókrata, hefur þó ítrekað að staðið verði við gefin loforð um hina hörðu innflytjendastefnu.Þannig yrði ekki hróflað við al­mennu reglu­verki í kring­um mál­efni flótta­fólks, sem komið var á til að stemma stigu við fjölg­un umsækj­enda upp úr 2015. 

Und­ir það falla regl­ur um sam­ein­ingu fjöl­skyldna, brott­vís­un þeirra sem ger­ast brot­leg­ir við lög, samn­ing­ar um rík­is­borg­ara­rétt og fleira. Sama gild­ir um hina svokölluðu „viðhorfs­breyt­ingu“ (d. para­dig­meskiftet) sem lög­fest var fyrr á ár­inu, með stuðningi Sósí­al­demó­krata, Danska þjóðarflokks­ins og rík­is­stjórn­ar­inn­ar, og kveður meðal ann­ars á um að öll land­vist­ar­leyfi til flótta­fólks skuli héðan af ein­ung­is vera tímabundin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert