Boris: Skaðsemi Brexit stórlega ýkt

Boris Johnson heitir því að Bretar muni yfirgefa ESB 31. …
Boris Johnson heitir því að Bretar muni yfirgefa ESB 31. október, með eða án samnings. AFP

Fullyrðingar um skaðsemi samningslausrar útgöngu Breta úr Evrópusambandinu eru stórlega ýktar að mati Boris Johnson, sem býður sig fram til formennsku í breska Íhaldsflokknum. Í sama streng tekur Philip Hammond fjármálaráðherra sem hefur talað um að samningsleysið geti kostað breskan efnahag 90 milljarða punda, eða um 14.000 milljarða íslenskra króna. Tölurnar hefur hann úr mati breska fjármálaráðuneytisins á langtímaefnahagsafleiðingum útgöngu, byggt á ólíkum framgangi útgöngunnar.

Í viðtali við BBC var haft eftir talsmönnum Vöruhúsasamtaka Bretlands (UKWA) að bresk vöruhús væru að þolmörkum komin. Laust rými í vöruhúsum landsins væru um 7% samanborið við 23% fyrir áratug, og ljóst að bresk fyrirtæki vilja birgja sig upp fyrir það versta.

Jeremy Hunt, mótframbjóðandi Johnson, sagði í viðtali við sjónvarpsstöðina ITV í dag að samningslaus útganga gæti haft viðlíka afleiðingar, en þó ekki alveg jafnvíðtækar, og fjármálakreppan fyrir um áratug. Hunt hefur, ólíkt Boris Johnson, ekki viljað lýsa því yfir að hann muni koma Bretum úr sambandinu 31. október, þegar núverandi framlenging útgönguferlisins rennur út. Að því skuli stefnt, en það verði að ráðast af stöðu samningaviðræðna á þeim tímapunkti.

Johnson hefur hins vegar lýst því yfir að Bretar skuli út þann dag, með eða án samnings, og hefur heitið því að honum muni takast betur til en Theresu May í að semja um útgönguna. Segir hann það þrátt fyrir ítrekaðar yfirlýsingar leiðtoga Evrópusambandsríkja um að ekki standi annað til boða en núverandi útgöngusamningur Theresu May eða ný þjóðaratkvæðagreiðsla. Var þessi afstaða sambandsins ítrekuð nú síðast með yfirlýsingu á leiðtogafundi sambandsins í Brussel um helgina.

Johnson hefur þó sagt að hvorki komi til greina að haga útgöngu með þeim hætti að landamæri Írlands og Norður-Írlands verði á ný lokuð, né að Norður-Írland standi utan tilvonandi tollasvæðis Bretlands. Þar stendur hnífurinn í kúnni.

Allsherjaratkvæðagreiðsla meðal flokksmanna breska Íhaldsflokksins um hver skuli taka við formennsku, Hunt eða Johnson, stendur nú yfir en sigurvegarinn verður tilkynntur eftir um þrjár vikur. Mun hann þá jafnframt taka við sem forsætisráðherra í minnihlutastjórn Íhaldsflokksins sem varin er falli af liðsmönnum norðurírska Sambandslýðveldisflokksins (DUP).

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert