Þekkti „stubbinn“ á sígarettupakkanum

Maðurinn missti ekki fótinn vegna reykinga.
Maðurinn missti ekki fótinn vegna reykinga. AFP

Sextugum albönskum karlmanni, búsettum í austurhluta Frakklands, brá heldur betur í brún þegar hann komst að því að mynd af aflimuðum fótlegg hans hafði verið notuð á sígarettupakka án hans vitundar.

Myndin var notuð á pökkum sem seldir eru í ríkjum Evrópusambandsins ásamt skilaboðunum „reykingar stífla slagæðarnar þínar“.

Maðurinn segir hins vegar að hann hafi misst fótlegginn eftir að ráðist var á hann í heimalandinu árið 1997.

Lögfræðingur mannsins ætlar að hafa samband við Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins til að finna út hvernig myndin endaði á pakkanum. Sonur mannsins sá myndina þegar hann keypti sér tóbak í Lúxemborg í fyrra. Hann kannaðist við „stubbinn“ og sýndi fjölskyldunni myndina. Faðir hans staðfestir að þetta væri mynd af honum.

Maðurinn segist aldrei hafa samþykkt að myndin yrði notuð. Hann telur að hún hafi verið tekin á spítala þegar hann kom og lét athuga hvort hann gæti fengið gervilim. Lögfræðingur mannsins mun einnig hafa samband við spítalann til að finna út hvernig myndin endaði á sígarettupakkanum.

Frétt BBC.

mbl.is