Fannst bak við kælinn eftir 10 ár

Larry Ely Murillo-Moncada hafði verið saknað frá því í nóvember …
Larry Ely Murillo-Moncada hafði verið saknað frá því í nóvember 2009. Ljósmynd/Lögreglan í Iowa

Verkamenn sem voru að fjarlægja hillur og kæla úr lágvöruverðsverslun í borginni Council Bluffs í Iowa, sem hætt var í rekstri fundu á dögunum lík bak við einn kælinn. Líkamsleifarnar reyndust tilheyra Larry Ely Murillo-Moncada, fyrrverandi starfsmanni verslunarinnar, sem hafði verið saknað frá því í nóvember 2009.

CNN greinir frá og segir lögreglu hafa notað dna-sýni úr foreldrum mannsins til að bera kennsl á hann. Þá hafi fatnaðurinn líka passað við þann sem Murillo-Moncada hafði klæðst er hvarf hans var tilkynnt.

Það voru foreldrar Murillo-Moncada sem tilkynntu á sínum tíma hvarf sonar síns. Hann hafði komist í uppnám og hlaupið út af heimili þeirra. Sögðu þau lögregluyfirvöldum í Council Bluffs að hegðan hans hefði verið órökrétt og að það mætti mögulega rekja til lyfja sem hann tók.

Todd Weddum, lögreglustjóri borgarinnar segir lögreglumenn á þeim tíma hafa sett sig í samband við aðra ættingja, lögregluyfirvöld í nágrannaríkjum, innflytjendabúðir og útlendingaeftirlitið, en Murillo-Moncada hafði verið sendur úr landi til Hondúras og snúið síðan aftur til Bandaríkjanna. Engar upplýsingar var hins vegar að finna um hvar hann væri niðurkominn.

Lögregla telur nú að Murillo-Moncada hafi farið í verslunina þar sem hann vann. Hann hafi klifrað upp á kælana, en plássið þar uppi var notað til að geyma varning og segir Weddum starfsmenn stundum hafa klifrað þangað upp þegar þeir vildu taka sér pásu án leyfis.

Talið er að Murillo-Moncada hafi svo fallið niður í 45 cm breitt bil milli kælanna og veggjarins og setið fastur þar. Segir Weddum hávaðann í kælunum kunna að hafa komið í veg fyrir að hjálparóp hans hafi heyrst og hefur andlát hans verið úrskurðað af slysförum.

mbl.is