Hundrað þúsund dauðsföll á sjö árum

Í El Paso-sýslu í Colorado var tæplega 126 milljónum ópíóðataflna …
Í El Paso-sýslu í Colorado var tæplega 126 milljónum ópíóðataflna ávísað á árunum 2006-2012, eða sem nemur 30 töflum á hvern íbúa á dag. Af vef Narconon

Um hundrað þúsund dauðsföll á árunum 2006 til 2012 í Bandaríkjunum má rekja til of stórra ópíóðaskammta. Þetta kemur fram í gagnagrunni sem The Washington Post birti í síðasta mánuði sem geymir ógrynni gagna um ópíóða sem bandaríska ríkið hefur undir höndum. Gagnagrunnurinn er opinn öllum

Tölurnar sem finna má í gagnagrunninum eru sláandi. Gögnin eru flokkuð eftir ríkjum og sýslum og sýna meðal annars magn oxycodone- og hydrocodone-pilla sem flutt voru inn í ríkin á þessu sjö ára tímabili. 

Þrjú lyfjafyrirtæki, SpecGx, Actavis Pharma og Par Pharmaceutical, framleiða um 88% lyfjanna. 

Yfir milljarður lyfseðla í Colorado

Colorado Springs Independent hefur tekið saman tölur um ópíóðafaraldurinn í ríkinu en þær sýna meðal annars fram á að apótek í ríkinu tóku á móti rúmlega milljarði lyfseðla fyrir ópíóðalyfjum á tímabilinu. 

Í El Paso-sýslu var tæplega 126 milljónum ópíóðataflna ávísað, eða sem nemur 30 töflum á hvern íbúa á ári. Til samanburðar var tæplega 77 milljónum taflna ávísað í Denvers-sýslu, eða um 18 töflum á hvern íbúa á ári.  

Yfir 1.600 málsóknir

Ópíóðafaraldurinn í Bandaríkjunum er einna helst rakinn til Sackler-fjöl­skyldunnar, moldríkrar fjölskyldu sem hagnast á sölu verkjalyfsins OxyCont­in. Lyfið, sem kom á markað á tí­unda ára­tug síðustu ald­ar, reynd­ist sér­lega ávana­bind­andi og er talið eiga stærst­an þátt í þeim ópíóðafar­aldri sem nú geis­ar. Millj­ón­ir eru háðar þess­um lyfj­um og heil­brigðis­yf­ir­völd standa ráðþrota frammi fyr­ir vand­an­um.

Samkvæmt gögnum The Washington Post eru í dag um 1.600 borgir, sýslur, ríki, verkalýðsfélög og einstaklingar sem hafa höfðað mál gegn lyfjaframleiðendum og -dreifendum víðs veg­ar um Banda­rík­in.

Rauði þráður­inn í þeim öll­um er sá hinn sami: Að fyr­ir­tækin hafi kveikt neist­ann að ópíóðafar­aldr­in­um sem hefur orðið að minnsta kosti 100.000 manns að bana á síðustu 13 árum og dauðsföll­in halda áfram að hlaðast upp. Farið er fram á háar skaðabæt­ur frá fyrirtækjunum sem á að nýta til að sporna gegn far­aldr­in­um.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert