Braut sér leið í gegnum vegginn

Amerískur svartbjörn.
Amerískur svartbjörn. Ljósmynd/Wikipedia.org

Svartbjörn nokkur sem braust inn í hús í Colorado í Bandaríkjunum notaði hvorki dyr né glugga til að komast út úr húsinu, heldur flúði hann með því að brjóta sér leið í gegnum einn útveggja hússins.

Lögregluyfirvöld í Colorado segja innbrotið hafa átt sér stað síðdegis á föstudag þegar enginn var heima. Var það væntanlega lyktin af heimilissorpinu sem laðaði björninn að.

„Þegar lögreglumenn komu á staðinn flúði bangsi hins vegar með því að brjóta sér leið í gegnum vegginn, líkt og Kool-Aid maðurinn,“ segir lögregla í Estes Park í færslu sinni um málið á Facebook. Kool-Aid er gosdrykkur og sést fígúra sem notuð er í auglýsingum fyrir drykkinn gjarnan brjóta sér leið í gegnum veggi.

„Leggið ykkar af mörkum til að halda björnunum villtum. Birnir eru skynsemisskepnur sem þýðir að við þurfum líka að vera það,“ sagði í færslunni.

Engum varð meint af heimsókn bjarnarins að þessu sinni, en í skýrslu frá umhverfisstofnun Colorado kemur fram að bjarndýr hafi brotist inn í 35 bíla og níu hús í Estes Park á tíu daga tímabili fyrir 3. ágúst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert