Eftirlýstu drengirnir fundust látnir

Kam McLeod og Bryer Schmegelsky fundust látnir í norðurhluta Manitoba …
Kam McLeod og Bryer Schmegelsky fundust látnir í norðurhluta Manitoba í síðustu viku. Þeir voru eftirlýstir af lögreglu vegna þriggja morða. AFP

Tveir unglingsdrengir sem kanadíska lögreglan hefur lýst eftir vegna morðrannsókna fundust látnir í norðurhluta Manitoba í síðustu viku. Krufning gefur til kynna að drengirnir hafi framið sjálfsmorð með skotvopni. BBC greinir frá. 

Dreng­irn­ir Kam Mc­Leod, 19 ára, og Bryer Sch­meg­el­sky, 18 ára, voru á flótta í rúmar þrjár vik­ur og ekk­ert hafði sést til þeirra, svo vitað sé, frá 22. júlí.

Fyrst var til­kynnt um að Mc­Leod og Sch­meg­el­sky væri saknað 19. júlí, eft­ir að pall­bíll þeirra fannst í ljós­um log­um nærri Dea­se-stöðuvatn­inu í Bresku-Kól­umb­íu, tæpa tvo kílómetra frá þeim stað þar sem líkið af há­skóla­kenn­ar­an­um Leon­ard Dyck fannst.

Nokkr­um dög­um síðar greindi kanadíska lög­regl­an frá því að Mc­Leod og Sch­meg­el­sky væru einnig grunaðir um morðið á hinni banda­rísku Chynna Deese og Ástr­al­an­um Lucas Fowler, en þau fund­ust myrt um 500 kílómetrum frá þeim stað þar sem lík Dyck upp­götvaðist.

Lík drengjanna fundust fyrir helgi og í yfirlýsingu lögreglu sem gefin var út í dag kemur fram að þeir höfðu verið látnir í nokkra daga þegar þeir fundust. Tvær byssur fundust í fórum drengjanna og verið er að rannsaka hvort þær tengist morðunum á þremenningunum.

mbl.is