Trump frestar tollum vegna jólaverslunar

Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði álagningu innflutningstollanna frestað vegna jólaverslunar.
Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði álagningu innflutningstollanna frestað vegna jólaverslunar. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti í gær að bandarísk stjórnvöld hafi ákveðið að fresta álagningu 10% innflutningstolla sem taka áttu gildi 1. september. Vonast stjórnvöld með þessu til að draga úr áhrifum tollanna, sem leggjast munu á farsíma, fartölvur og ýmsan annan neytendavarning, á jólaverslun í Bandaríkjunum.

„Við erum að gera þetta fyrir jólavertíðina, svona til öryggis ef einhverjir innflutningstollanna hefðu áhrif á bandaríska viðskiptavini,“ hefur Reuters eftir Trump. „Til öryggis, svona ef þeir hefðu áhrif á fólk, höfum við seinkað þeim svo þetta hafi ekki áhrif á jólaverslunina.“

Innflutningstollarnir gilda fyrir innflutning á kínverskum vörum að andvirði um 300 milljarða Bandaríkjadala. Segir Reuters frestunina nú og aukinn kraft í viðskiptaviðræðum kínverskra og bandarískra ráðamanna hafa ýtt við verðbréfamörkuðum í Bandaríkjunum og hækkuðu vísitölur nokkuð við fréttirnar. Þannig hækkaði t.a.m. Standard & Poor's 500 um 1,5% og Nasdaq um tæp 2%.

Tollarnir eiga nú að taka gildi 15. desember og munu gilda um þúsundir muna, m.a. fatnað og skó, auk áðurnefndra farsíma og fartölva.

Ekki hefur innflutningstollum á allan varning þó verið frestað því bandarísk stjórnvöld hyggjast enn skella 10% tolli á kínverska flatskjái, kínversk matvæli, fatnað og ýmsan kínverskan rafrænan varning eins og snjallhátalara Amazon, Google og Apple og snjallúr Apple og Fitbit frá og með næstu mánaðamótum.

mbl.is