Bretaprins fékk fótanudd í íbúð Epsteins

Andrew Bretaprins. Í tölvupósti til rithöfundarins Evgeny Morozov rifjar umboðsmaðurinn …
Andrew Bretaprins. Í tölvupósti til rithöfundarins Evgeny Morozov rifjar umboðsmaðurinn John Brockman upp er hann hitti prinsinn á heimili Epstein. AFP

Andrew Bretaprins sást fá fótanudd frá ungri konu í íbúð auðkýfingsins og barnaníðingsins Jeffrey Epstein í New York. Guardian segir þetta koma fram í tölvupóstsamskiptum vel þekkts bandarísks umboðsmanns rithöfunda og rithöfundarins Evgeny Morozov.

Í yfirlýsingu sem konungshöllin sendi frá sér fyrr í vikunni sagði Andrew sér blöskra ásak­an­ir um kyn­ferðis­legt of­beldi tengt Ep­stein. Yfirlýsingin var send frá höllinni eftir að mynd­skeið sem á að sýna prins­inn á heim­ili barn­aníðings­ins árið 2010 var birt. 

Samskipti þeirra Morozov og umboðsmannsins John Brockman voru fyrst birt í tímaritinu New Republic. Þar segir frá því að Brockman hafi hvatt Morozov til að hitta Epstein og kallar hann „vísinda mannvin og milljarðamæring“ sem hafi verið „verulega gjafmildur við að fjármagna verkefni fyrir marga vini okkar og viðskiptavini“.

Í grein sem Morozov birtir í tímaritinu kveðst hann vera við það að skera á tengsl sín við Brockman vegna þagnar þess síðarnefnda um kynni sín af Epstein frá því hann var fyrst handtekinn árið 2013 og hvetur aðra rithöfunda til að gera slíkt hið sama.

Andrés prins og Virginia Roberts þegar þau hittust fyrst árið …
Andrés prins og Virginia Roberts þegar þau hittust fyrst árið 2001. Lengst til hægri er Ghislaine sem kynnti Roberts fyrir Jeffrey Epstein.

Breskur gaur í jakkafötum með axlabönd

Morozov birtir m.a. tölvupóst sem Brockman sendi honum í september 2013 og þar sem hann rifjar upp heimsókn á sína á heimili Epstein á Manhattan.

„Síðast þegar ég kom heim til hans ...þá gekk ég inn á hann í jogginggalla og breskan gaur í jakkafötum með axlabönd vera að fá fótanudd frá tveimur ungum, vel klæddum rússneskum konum,“ skrifaði Morozov.

„Eftir að hafa yfirheyrt mig um netöryggi þá fór Bretinn, sem var kallaður Andy, að tjá sig um sænsk yfirvöld og ákærurnar gegn Julian Assange. „Það halda allir að þeir séu svo frjálslyndir í Svíþjóð, en þeir eru í raun líkari Norður-Englandi en Suður-Evrópu,“ rifjar Brockman upp að „Andy“ hafi sagt.

Brockman segir Andy því næst hafa kvartað yfir opinberri ímynd sinni. „Í Mónakó vinnur Albert 12 tíma á dag, en klukkan níu þegar hann fer út þá getur hann gert það sem hann vill og öllum er sama. Ef ég geri það sama þá er ég í miklum vanda“,“ segir Brockman í pósti sínum Andy hafa sagt. Það var á þeim tímapunkti bætir hann svo við „sem ég áttaði mig á því að sá sem var að fá fótanudd frá Irinu var hans konunglega hátign Andrew Bretaprins, hertoginn af Jórvík.“

Brockman lauk svo frásögn sinni af tengslum prinsins af Epstein viku síðar í tölvupósti til Morozov þar sem hann segir að á fréttalitlum degi hafi heilsíðu mynd birst í New York Post af þeim Epstein og Andrew á göngu í Central Park undir fyrirsögninni „Prinsinn og Pervertinn“og þar með hafi hlutverki Andrews sem sérstakur viðskiptasendiherra Bretlands lokið.

Ep­stein fannst lát­inn í fanga­klefa sín­um 10. ág­úst en hann beið rétt­ar­halda þar sem hann var meðal ann­ars ákærður fyr­ir kyn­ferðis­legt of­beldi gagn­vart barni og kyn­lífsm­an­sal á börn­um. 

Dán­ar­dóm­stjóri hef­ur úr­sk­urðað að um sjálfs­víg hafi verið að ræða. Ep­stein átti marga þekkta vini svo sem Don­ald Trump, for­seta Banda­ríkj­anna, og Bill Cl­int­on, fyrr­ver­andi for­seta Banda­ríkj­anna.

mbl.is