Frakkar rannsaka barnaníðsmál tengt Epstein

Íbúð Epstein var í þessari byggingu í París.
Íbúð Epstein var í þessari byggingu í París. AFP

Franskur saksóknari hefur nú hafið rannsókn á nauðgun og kynferðisbrotum gegn börnum þar í landi, sem talin eru tengjast hneykslismáli auðkýfingsins og barnaníðingsins Jeffrey Epstein.

AFP fréttaveitan greinir frá þessu og segir frönsku lögregluna hafa sætt þrýstingi að rannsaka ásakanir um misnotkun sem á að hafa átt sér stað í lúxusíbúð í eigu Epstein í nágrenni Champs-Elysees breiðgötunnar í París.  Epstein svipti sig lífi í fangelsi á Manhattan fyrr í mánuðinum og hafa bandarísk yfirvöld þegar lýst því yfir að rannsókn á málum Epsteins verði ekki látin niður falla. Hafa bandarískir rannsakendur þegar fundið tengsl við Frakkland.

„Rannsóknin ... mun beinast að mögulegum glæpum gegn frönskum fórnarlömbum sem framin hafa verið á franskri jörð, sem og erlendis og gegn gerendum sem eru franskir ríkisborgarar,“ sagði Remy Heitz saksóknari í París í yfirlýsingu.

Sagði hann nauðgun og kynferðisbrot gegn börnum 15 ára og eldri vera meðal þeirra brota sem kunni að verða kært fyrir.

Þá verða einnig rannsakaðar fullyrðingar um að Epstein og fleiri hafi árum saman átt aðild að víðfeðmum barnaníðshring.

Var valdamikill innan fyrirsætubransans

Nú fyrr í vikunni greindu frönsku góðgerðarsamtökin Danger, sem vinna að því að vernda börn gegn kynferðisofbeldi, að þau hefðu safnað 10 vitnisburðum um meint kynferðisbrot gegn börnum sem áttu sér stað í Frakklandi.

Segir AFP rannsakendur líklega til að yfirheyra Jean-Luc Brunel, náinn vin Epstein sem áður var valdamikill innan fyrirsætubransans í Frakklandi. Var Brunel raunar nefndur á nafn í einkamáli sem höfðað var fyrir fjórum árum síðan, en þá var hann sakaður um nauðgun og að útvega Epstein ungar stúlkur.

Virg­inia Guif­fre höfðaði árið 2015 mál gegn Ghislaine Maxwell, vin­konu Ep­stein til ára­tuga. Fram kom í vitn­is­b­urði Guif­fre að hún hefði verið ráðin í vinnu hjá Ep­stein sum­arið 2000, er hún var 16 ára göm­ul, og að Maxwell hefði ráðið hana. Hún lýsti því sem svo að hún hefði verið ráðin sem nudd­kona, en fljót­lega hefði hún verið orðin „kyn­lífsþræll“ Ep­stein. Guif­fre og Maxwell sömdu um málið utan dóm­stóla árið 2017 og voru gögn­in ekki birt fyrr en nýlega

Giuffre sagðist hafa verið neydd til að stunda kynlíf með þekktum stjórnmálamönnum og kaupsýslumönnum, m.a Brunel sem hún sagði hafa flutt stúlkur allt niður í 12 ára gamlar til Bandaríkjanna. Þar hefði hann afhent þær vinum sínum, m.a. Epstein.

Skömmu síðar rauf Brunel áralanga þögn sína gagnvart fjölmiðlum er hann harðneitaði aðild, beinni sem óbeinni, að glæpum Epsteins. Líkt og fjölmargir aðrir vinir Epsteins þá hefur ekkert heyrst til Brunel eftir að Epstein var ákærður.

Sam­kvæmt frétt­um banda­rískra fjöl­miðla átti Ep­stein litla svarta bók, þar sem hann skráði nöfn yfir 100 stúlkna eða kvenna frá þeim svæðum þar sem hann átti heim­ili, hvort sem það var á Palm Beach í Flórída, New York eða í Par­ís. Segir AFP tugi nafna í bókinni hafa verið listuð undir heitinu „nudd“ og um 30 þeirra hafi verið í Frakklandi.

Ep­stein átti marga þekkta vini svo sem Don­ald Trump, for­seta Banda­ríkj­anna, Andrew Bretaprins og Bill Cl­int­on, fyrr­ver­andi for­seta Banda­ríkj­anna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert