Margir kostir við kaup á Grænlandi

Austurströnd Grænlands, skammt frá Kulusuk.
Austurströnd Grænlands, skammt frá Kulusuk. AFP

Bandarískur öldungadeildarþingmaður segir að margir kostir felist í því að kaupa Grænland af Dönum. Staðurinn sé hernaðarlega mikilvægur fyrir Bandaríkin, kaupin væru efnahagslega hagkvæm bæði fyrir Bandaríkin og Grænland og þau væru í takt við söguleg tengsl Bandaríkjanna og Danmerkur.

Þetta skrifar Tom Cotton, þingmaður Repúblikanaflokksins, í aðsendri grein í The New York Times. Hann segir það hafa verið fyrirsjáanlegt að andstæðingar Donalds Trump Bandaríkjaforseta hafi sagt hann brjálaðan fyrir að hafa lýst yfir áhuga á kaupunum. Hann viti þó hvað hann syngur.

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Ræddi við danska sendiherrann 

Cotton bendir á að bandarískir stjórnmálamenn hafi lengi haft áhuga á Grænlandi vegna staðsetningar landsins. Utanríkisráðherrann William Seward hafi árið 1867 kannað möguleikann á að kaupa Grænland á svipuðum tíma og hann samdi um kaupin á Alaska frá Rússum. „Ég sjálfur léði máls á möguleikanum á því að eignast Grænland við danska sendiherrann á síðasta ári,” skrifar þingmaðurinn.

Hann minnist þess er stjórn forsetans Harry S. Truman bauð 100 milljónir Bandaríkjadala í Grænland árið 1946 vegna vaxandi ógnar af hálfu Sovétríkjanna og nefnir að Thule-herstöðin sé núna starfrækt á eyjunni.  

Cotton talar um að Kínverjar hafi reynt að kaupa gamlar bækistöðvar bandaríska sjóhersins á Grænlandi árið 2016, sem dönsk stjórnvöld komu í veg fyrir, og tveimur árum síðar hafi Kínverjar reynt að kaupa þrjá flugvelli á eyjunni, sem hafi ekki gengið eftir vegna þess að stjórn Trump lagði sérstaka áherslu á það við Dani.

Tom Cotton (til vinstri með gult bindi) á Bandaríkjaþingi í …
Tom Cotton (til vinstri með gult bindi) á Bandaríkjaþingi í júlí síðastliðnum. AFP

Áhugi frá Kínverjum 

Þingmaðurinn segir að stjórnvöld í Peking átti sig bæði á mikilvægri staðsetningu Grænlands og hvernig nýta megi landið í efnahagslegu tilliti því landið hafi yfir að ráða mikilvægum jarðefnum sem eru mikilvæg þegar kemur að hátækniiðnaði og hernaði. Kínverjar hafi yfirburði á þessum jarðefnamarkaði og hóti því halda Bandaríkjunum frá honum í samningaviðræðum á milli landanna. Einnig sé að finna mikið af olíu og jarðgasi á Grænlandi sem hægt væri að nýta.

Cotton bætir við að Bandaríkin gætu létt fjárhagslegri byrði af Dönum með því að eignast Grænland og að þau ættu auðveldara með að fjárfesta í framtíð eyjunnar. Bendir hann á Alaska í því samhengi og ber ríkið saman við aðstæðurnar í Síberíu undir stjórn Rússa.

Austurströnd Grænalds skammt frá Kulusuk.
Austurströnd Grænalds skammt frá Kulusuk. AFP

Mörg önnur dæmi 

Jafnframt minnist þingmaðurinn á að þegar horft sé til baka hafi Bandaríkin keypt fleiri landsvæði annarra þjóða með góðum árangri. Þriðjungur bandarísks landsvæðis hafi verið keyptur af Spánverjum (Flórída), Frökkum (Louisiana), Mexíkó (hluti af Arizona og Nýju-Mexíkó) og Rússum (Alaska).

Í raun hafi Bandaríkin og Danmörk átt sams konar viðskipti árið 1917 þegar forsetinn Woodrow Wilson greiddi 25 milljónir Bandaríkjadala fyrir Vestur-Indíur, sem heita núna Bandarísku-Jómfrúareyjar.

mbl.is