Vilja setja aukinn kraft í viðræðurnar

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, og Jean-Claude Juncker, fráfarandi forseti framkvæmdastjórnar …
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, og Jean-Claude Juncker, fráfarandi forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, á fundinum í dag. AFP

Setja þarf aukinn kraft í viðræður á milli Bretlands og Evrópusambandsins um fyrirhugaða útgöngu Breta úr sambandinu. Þetta er sameiginlegt mat Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, og Jean-Claudes Juncker, fráfarandi forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, en þeir funduðu í dag í Lúxemborg um stöðu málsins.

Til stendur meðal annars að embættismenn Bretlands og Evrópusambandsins muni funda daglega samkvæmt upplýsingum frá breska forsætisráðuneytinu. Talsmenn sambandsins segja hins vegar að bresk stjórnvöld hafi enn ekki lagt fram tillögur að því hvernig tryggja megi greiðar samgöngur um landamærin Írlands og Norður-Írlands.

Juncker lagði áherslu á það á fundinum með Johnson að það væri á ábyrgð Bretlands að leggja fram tillögur í þeim efnum sem virkuðu. Evrópusambandið hefur ítrekað sagt að ekki komi til greina að breyta útgöngusamningnum sem forveri Johnsons, Theresa May, samdi um við sambandið en hefur verið þrisvar hafnað af neðri deild breska þingsins.

Johnson hefur sagt að hann sé sannfærður um að hann geti samið um nýjan útgöngusamning á næstu vikum. Juncker sagði fyrir fundinn með Johnson, spurður hvort hann væri bjartsýnn á að hann skilaði árangri, að hann væri alltaf bjartsýnn.

mbl.is