Megrunarlyf sem kostaði allt að 2.000 manns lífið

Megrunarlyfið Mediator var markaðssett sem megrunarlyf fyrir sykursjúka, en var …
Megrunarlyfið Mediator var markaðssett sem megrunarlyf fyrir sykursjúka, en var í reynd ávísað mun stærri hópi. AFP

Réttarhöld hefjast í dag í einu stærsta hneykslismáli franska heilbrigðisiðnaðarins, þegar réttað verður yfir franska lyfjafyrirtækinu Servier og lyfjaeftirliti landsins. Um manndrápsákæru er að ræða, en franska megrunarlyfið Mediator er talið hafa kostað allt að 2.000 manns lífið og valdið mun fleiri ævarandi heilsutjóni.

Guardian segir ákærurnar hljóða upp á manndráp og blekkingu og vonast saksóknarar til að geta svipt hulunni af umfangsmiklum lyfjaiðnaði landsins.

Servier, sem er ein stærsta einkarekna lyfjaverksmiðja í Frakklandi, er sökuð um að leyna banvænum aukaverkunum lyfsins Mediator og er franska lyfjaeftirlitið ákært fyrir að sýna linkind og fyrir að bregðast ekki við og hindra þar með dauða og heilsutjón.

Mediator-megrunarlyfið byggðist á amfetamíntengdu efni og var markaðssett sem megrunarlyf fyrir sykursjúka. Heilbrigðar konur fengu því þó einnig oft ávísað til að draga úr matarlyst ef þær vildu missa nokkur kíló. Jafnvel heilbrigðar og grannar konur fengu lyfinu ávísað af læknum sem mæltu með því að þær tækju það til að koma í veg fyrir að þær bættu á sig kílóum.

Allt að fimm milljónir manna fengu lyfinu ávísað á árabilinu 1976 til 2009 þrátt fyrir að grunur léki á að það ylli hjarta- og lungnabilun. Rannsókn franska heilbrigðisráðuneytisins sýndi síðar fram á að 500 manns hið minnsta hefðu látið af völdum bilunar í hjartaloku sem notkun á Mediator hefði valdið. Margir læknar telja töluna þó nær 2.000 manns. Þá hefur lyfið valdið þúsundum til viðbótar ævarandi heilsutjóni.

Segir Guardian sumar konur sem voru við góða heilsu er þær byrjuðu að taka lyfið hafa endað á að vera ófærar um að ganga upp nokkrar tröppur og að þær byggju nú við ævarandi hjarta- og æðavanda sem hefði hamlandi áhrif á daglegt líf þeirra.

Servier lyfjaframleiðandinn  hefur þegar greitt út tæplega 132 milljónir evra í bætur vegna lyfsins.

Réttarhöldunum nú er ætlað að úrskurða hvers vegna lyfið var svo lengi á markaði og fullyrða lögfræðingar að Servier hafi áratugum saman blekkt sjúklinga og notið við það aðstoðar yfirvalda.

Þá er franska lyfjaeftirlitið, Agence National de Sécurité du Médicament, ákært fyrir að grípa ekki inn í og hafa ekki nægt eftirlit með lyfinu. Er lyfjaeftirlitið sakað um að hafa brugðist of seint við og fyrir að vera í of nánum tengslum við lyfjafyrirtækin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert