Ellefu fílar drápust við að bjarga unga

Fílshræ við Helvítisfossa í Khao Yai-þjóðgarðinum Taílandi.
Fílshræ við Helvítisfossa í Khao Yai-þjóðgarðinum Taílandi. AFP

Ellefu fílar hafa fundist dauðir við Helvítisfossa (t. Haew Narok) í Taílandi. Talið er að fílarnir hafi verið að reyna að bjarga fílsunga sem hafði fallið í fossinn.

Yfirvöld í Khao Yai-þjóðgarðinum komu upphaflega auga á sex dauða fíla við fossinn um helgina, en fimm til viðbótar fundust eftir að flogið var yfir svæðið með dróna.

Meðal fílanna sem dauðir eru er þriggja ára gamall ungi, og er talið að hinir fílarnir hafi verið að reyna að komast yfir ána eftir að sá litli féll í fossinn, en orðið straumnum að bráð og fallið í fossinn rétt eins og unginn.

Hjarðdýr sem stóla hvert á annað

Tveir fílar fundust á lífi á klettabrún í ánni. Búið er að koma til þeirra fæðu til þess að þeir geti safnað kröftum og komist aftur inn í skóginn.

Ljósmynd af fílunum sem sitja fastir á klettabrún í ánni.
Ljósmynd af fílunum sem sitja fastir á klettabrún í ánni. AFP

Þótt það takist er alls óvíst að fílarnir tveir lifi af, enda eru þeir mikil hjarðdýr og stóla hver á annan við vernd og matarleit. Þá er ráðgert að missirinn muni hafa tilfinningaleg áhrif á fílana sem eftir lifa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert