Lögreglan selur fíkniefni

Oscar Albayalde og Rodrigo Duterte.
Oscar Albayalde og Rodrigo Duterte. AFP

Ríkislögreglustjóri Filippseyja, sem stýrir baráttunni gegn fíkniefnum, neyddist til þess að segja af sér í dag þar sem hann liggur undir grun um að hafa haldið hlífðarskildi yfir lögreglumönnum sem selja fíkniefni sem lagt hefur verið hald á.

Þrátt fyrir að málið nái mun lengra aftur en frá því Oscar Albayalde tók við embættinu hefur það ýtt undir nýja gagnrýni á vinnubrögð forseta landsins, Rodrigo Duterte, hvað varðar baráttuna gegn fíkniefnum. Sú barátta hefur skilað honum miklum vinsældum meðal almennings í landinu.

Aftur á móti hafa aðferðir Duterte verið harðlega gagnrýndar af alþjóðasamfélaginu ekki síst fyrir að lögreglan er sökuð um að hafa drepið þúsundir fíkniefnasala og -notenda frá því um mitt ár 2016.

Albayalde sagði af sér í kjölfar þess að tveir fyrrverandi yfirmenn í lögreglunni tengdu hann við mál frá árinu 2013. Lögreglan gerði í því tilviki húsleit skammt frá höfuðborg landsins, Manila, og lagði hald á mikið magn af metamfetamíni sem hún síðan seldi.

Annar þeirra sagði að Albayalde hefði verndað þá svo ekki kæmist upp um þá og hinn sagði að Albayalde hefði þegið hluta ágóðans. 

Albayalde, sem var á þessum tíma yfirmaður lögreglunnar í þessu héraði, neitar að hafa brotið af sér. Hann átti að fara á eftirlaun í nóvember en hann hefur verið ríkislögreglustjóri frá því í apríl 2018.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert