Sakaði kviðdóm um fordóma

Charles Rhine var tekinn af lífi í nótt.
Charles Rhine var tekinn af lífi í nótt. AFP

Charles Rhines var tekinn af lífi með banvænni sprautu í fangelsi í Suður-Dakóta í nótt. Rhines var 63 ára gamall þegar hann lést en hann var dæmdur til dauða fyrir 26 árum fyrir að hafa drepið starfsmann verslunar sem kom að honum við innbrot.  

Charles Rhines sakaði kviðdómendur við réttarhöldin um fordóma í sinn garð vegna samkynhneigðar. Aftakan fór fram fljótlega eftir að hæstiréttur hafnaði beiðni lögmanna hans í gærkvöldi um að henni yrði frestað.

Lögmaður Rhines, Shawn Nolan, segir að það sé afar sorglegt og óréttlátt að Suður-Dakótaríki hafi ákveðið að taka samkynhneigðan mann af lífi þar sem ljóst sé, líkt og allir aðrir dómstólar hefðu tekið undir, að sú staðreynd að hann sé samkynhneigður hafi haft áhrif á niðurstöðu kviðdóms. 

Taldi ekki rétt að hann afplánaði með öðrum karlmönnum

Fram hefur komið að kviðdómari, sem greiddi atkvæði með dauðarefsingu, sagði að kviðdómendur hafi vitað að Rhines væri samkynhneigður og að þeir hafi ekki talið rétt að hann myndi eyða ævinni í fangelsi með öðrum karlmönnum. 

Annar kviðdómari greindi frá því að mikið hafi verið rætt um samkynhneigð meðal kviðdómaranna og mikil andstyggð hafi komið fram. „Þeir sem eru með fordóma gagnvart samkynhneigðum eiga aldrei að eiga aðild að því að dæma mann til dauða,“ segir Nolan. 

Sagðist fyrirgefa foreldrunum

Charles Rhines beindi síðustu orðum sínum til foreldra fórnarlambs síns og sagðist fyrirgefa þeim reiðina og hatrið í hans garð. Foreldrar Donnivan Schaefer, sem var 22 ára gamall þegar hann lést árið 1992, neituðu að viðurkenna og hlusta á orð hans. 

„Ed og Peggy Schaeffer, ég fyrirgef ykkur reiðina og hatrið í minn garð,“ sagði Rhines. Hann þakkaði verjendum sínum fyrir stuðninginn. „Ég bið til Guðs að fyrirgefa ykkur reiðina og hatrið í minn garð. Þakkir til teymisins. Ég elska ykkur öll, bless. Förum. Það er allt sem ég hef að segja. Bless.“

Donnivan Schaefer hafði unnið með Rhines í versluninni en sá síðarnefndi hafði verið rekinn úr starfi nokkrum vikum áður en hann framdi ránið í Rapid City. 

mbl.is