Pelosi sakar Trump um mútur

Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, sakar Donald Trump Bandaríkjaforseta um …
Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, sakar Donald Trump Bandaríkjaforseta um mútur. AFP

Nancy Pe­losi, leiðtogi demó­krata í full­trúa­deild­inni og for­seti full­trúa­deild­ar­inn­ar, notar nú orðið „mútur“ til að lýsa aðgerðum Donald Trump Bandaríkjaforseta í Úkraínumálinu, en mútur eru meðal þess sem nefnt er þeirri lagagrein þingsins sem heimilar að forseti sé kærður fyrir embættisglöp.

Vitnaleiðslur í rannsókn fulltrúadeildarinnar á embættisverkum Trumps hófust í gær, en hann er sakaður um að hafa reynt að þrýsta á úkraínsk stjórnvöld að hefja rann­sókn á Joe Biden, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna og núverandi forsetaframbjóðanda. 

Á fundi með fréttamönnum í dag sakaði Pelosi forsetann um „mútur“ með því að loka á mikilvæga hernaðaraðstoð við Úkraínu á sama tíma og hann var að reyna að fá þarlend stjórnvöld til að hefja rannsókn á pólitískum andstæðingi sínum.

Sagði hún Trump geta varið sig sjálfan gegn rannsókn þingsins með því að leggja fram sönnunargögn sem séu í mótsögn við ásakanir demókrata.

New York Times segir þessa beinu vísun Pelosi í mútur vera mikilvæga þar sem þetta sé eitt þeirra brota sem sé tilgreint í lögum þingsins. Sagði hún að þó að ekki hefði enn verið tekin endanleg ákvörðun um að ákæra forsetann, þá ynnu Demókratar að því að skilgreina meintar misgjörðir forsetans og þær ákærur sem gætu á næstu vikum orðið að kæru um embættisglöp.

„Vitnisburður sem var sem reiðislag studdi þær sannanir um mútur sem rannsóknin hefur leitt í ljós og að forsetinn hafi misnotað vald sitt og brotið gegn embættiseyði sínum með því að hóta því að halda eftir hernaðaraðstoð og fundi með Hvíta húsinu í skiptum fyrir rannsókn á pólitískum andstæðingi sínum,“ sagði Pelosi. Þetta hafi verið augljós tilraun hjá forsetanum til að öðlast forskot í kosningabaráttunni vegna forsetakosninganna á næsta ári.

Að sögn New York Times virðast þær vitnaleiðslur sem fram hafa farið til þessa ekki haft áhrif á stuðning þingmanna Repúblikana í fulltrúadeildinni við Trump, en sjálfur hefur forsetinn líkt rannsókninni við nornaveiðar.

mbl.is