Þrýsta á móttöku vígamanna

AFP

Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Mike Pompeo, þrýstir mjög á evrópsk ríki að taka við vígamönnum frá sínum löndum sem hafa verið handteknir og fangelsaðir í Sýrlandi og draga þá til ábyrgðar fyrir dómstólum.

Tekist var á um afdrif vígamanna á fundi fulltrúa rúmlega 30 ríkja í Washington í gær. Telja bandarísk yfirvöld að hugmynd Frakka um að rétta yfir vígamönnunum í Írak gangi ekki upp og sé óábyrg. Frönsk yfirvöld hafa ekki legið á skoðunum sínum varðandi ákvörðun Bandaríkjaforseta um að draga herlið sitt frá Sýrlandi. Frakklandsforseti hefur harðlega gagnrýnt ákvörðunina sem talin er hafa orðið til þess að Tyrkir ákváðu að ráðast inn í Sýrland og eyða uppreisnarmönnum úr röðum Kúrda. 

Pompeo segir að ríkin verði að taka við þúsundum erlendra hryðjuverkamanna sem eru í haldi og rétta yfir þeim. Nathan Sales, sem fer með samningamál á sviði hryðjuverka í bandaríska utanríkisráðuneytinu, segir að þar séu menn ekki á einu máli. En það sé óábyrgt að ætlast til þess að Írak beri eitt ábyrgð á að rétta yfir evrópskum vígamönnum. Nauðsynlegt sé að allir taki þátt og deili ábyrgðinni. 

Ríki eins og Frakkland og Bretland neita að taka við vígamönnum og segir utanríkisráðherra Frakklands, Jean-Yves Le Drian, að ríkisstjórn hans sé að fá úr því skorið hvers lenskir vígamennirnir eru og tekur fram að flestir þeirra séu Írakar og Sýrlendingar. Mikilvægt sé að rétta yfir þeim eins fljótt og auðið er. „Við megum aldrei gleyma að þessar konur og karlar sem gengu til liðs við Daesh (Ríki íslams) tóku ákvörðun af fúsum og frjálsum vilja þar að lútandi — að berjast fyrir hryðjuverkasamtök,“ segir Drian. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert