Salmond sór af sér sakir um kynferðisofbeldi

Alex Salmond kom fyrir dómara í Edinborg í morgun, ásakaður ...
Alex Salmond kom fyrir dómara í Edinborg í morgun, ásakaður um kynferðisofbeldi og áreitni í fjórtán ákæruliðum. AFP

Alex Salmond, fyrrverandi leiðtogi Skoska þjóðarflokksins (SNP), kom fyrir dómstól í Edinborg í dag og hafnaði ásökunum tíu kvenna um kynferðisbrot, sem hann er sagður hafa framið, meðal annars á meðan hann var leiðtogi flokksins og fyrsti ráðherra Skotlands.

Meint brot Salmond eru sögð hafa átt sér stað á árunum 2004 — 2018. Mál Salmond verður tekið til aðalmeðferðar 9. mars næstkomandi, samkvæmt frétt BBC um málið. Búist er við því að réttarhöldin taki fjórar vikur.

Salmond, sem er 64 ára gamall, ræddi við fréttamenn fyrir utan dómshúsið í Edinborg í morgun og sagðist ætla að verjast ásökunum kvennanna af krafti. „Eini staðurinn til þess að svara fyrir ásakanir um glæpi er í þessum rétti og það er nákvæmlega það sem ég ætla að gera næsta vor,“ sagði Salmond.

Ein kvennanna sakar Salmond um tilraun til nauðgunar, sem mun hafa átt sér stað sumarið 2014 í Bute House, opinberum húsakynnum ráðherrans í Edinborg. Salmond er í ákæru sagður hafa ýtt konunni upp að vegg og svipt hana og sjálfan sig klæðum, áður en hann ýtti henni á rúm og lagðist nakinn ofan á hana.

Réttarhöld yfir Salmond hefjast í mars á næsta ári.
Réttarhöld yfir Salmond hefjast í mars á næsta ári. AFP

Ákæran á hendur Salmond er alls í 14 liðum og á meðal þess sem hann er sagður hafa gert er að hafa kysst konu á munninn og káfað á brjóstum og rassi hennar utanklæða í nokkur skipti í Glasgow sumarið 2008. Sama kona segir Salmond hafa snert sig ósæmilega á næturklúbbi í Edinborg skömmu fyrir jól, annaðhvort árið 2010 eða 2011. Margar kvennanna lýsa því svo að Salmond hafi reynt að kyssa þær gegn þeirra vilja og snert þær ósæmilega.

Ein segir að ráðherrann hafi haft ætlun um að nauðga henni í Bute House í desember 2013. Hún segir hann hafa lagst ofan á sig í rúmi, káfað á henni, viðhaft kynferðisleg ummæli í hennar garð, reynt að toga upp kjól hennar og kysst hana ítrekað í andlitið.

Salmond var leiðtogi skoskra þjóðernissinna og fyrsti ráðherra Skotlands frá 2007 til 2014 og leiddi flokkinn í gegnum þjóðaratkvæðagreiðsluna um sjálfstæði Skotlands árið 2014, sem sjálfsstæðissinar töpuðu. Í kjölfarið sagði hann af sér sem formaður.

Hann sagði sig úr SNP eftir að ásakanir á hendur honum um kynferðislega áreitni komu fram í fyrra.

Tíu konur saka Salmond um kynferðislegt ofbeldi eða áreitni.
Tíu konur saka Salmond um kynferðislegt ofbeldi eða áreitni. AFP
mbl.is