Prinsinn varar við loftslagsvánni

Karl Bretaprins í borginni Christchurch á Nýja-Sjálandi í morgun.
Karl Bretaprins í borginni Christchurch á Nýja-Sjálandi í morgun. AFP

Karl Bretaprins varaði í morgun við því að heimsbyggðin sé að renna út á tíma til að takast á við loftslagsvána. Þetta sagði prinsinn, sem hefur um áratuga skeið verið ötull talsmaður umhverfisverndar, á fundi á Nýja-Sjálandi í morgun, en í dag lýkur sex daga ferð hans og eiginkonu hans Camillu, hertogaynju af Cornwall, um landið.

„Ögurstund er runnin upp og við höfum öll sama möguleika á að breyta um stefnu. En við höfum aðeins tíu ár,“ sagði prinsinn en ummælin lét hann falla á fundi í Lincoln háskólanum í borginni Christchurch.  „Ekkert er heilagt lengur, við erum að uppskera að fjölbreytni lífríkisins fer sífellt minnkandi vegna loftslagsbreytinga. Við verðum að greiða þessa skuld okkar sem sífellt hækkar.“

Karli og Camillu var fagnað í Christchurch bæði af hundum og fólki. AFP

Næst liggur leið hjónanna til Salómonseyja sem eru það svæði heims sem einna verst hefur orðið úti af völdum loftslagsbreytinga. Þar hefur yfirborð sjávar hækkað það mikið að íbúar hafa þurft að flytja sig um set. Þá hafa þar verið ör veðrabrigði, m.a. hvirfilbylir.

mbl.is