Myrtu 11 kristna menn í myndbandi

Liðsmenn hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams í Afganistan eftir upppgjöf þeirra í …
Liðsmenn hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams í Afganistan eftir upppgjöf þeirra í borginni Jalalabad í nóvember. AFP

Hryðjuverkamenn Ríkis íslams hafa gefið út myndband sem sýnir aftöku 11 kristinna einstaklinga í norðausturhluta Nígeríu. Myndefnið var sett á veraldarvefinn seint í gærkvöldi af Amaq-armi hryðjuverkasamtakanna. 

Í myndbandinu eru ellefu einstaklingar með bundið fyrir augun skotnir og stungnir til bana á ótilgreindum stað. „Þetta eru skilaboð til allra kristinna manna í heiminum,“ segir grímuklæddur maður í myndbandinu sem er einnar mínútu langt. Maðurinn fullyrðir að morðin séu í hefndarskyni fyrir dauða Abu Bakr al-Baghdadi. 

Bandarískir sérsveitarmenn eltu Baghdadi uppi í Norðvestur-Sýrlandi í lok október og réðust á fylgsni hans. Baghdadi flúði inn í göng og sprengdi sjálfan sig og tvö ung börn í loft upp með sjálfsvígsvesti sem hann klæddist. Baghdadi var útnefndur leiðtogi Ríkis íslams árið 2014, en eftir andlát hans hafa samtökin útnefnt nýjan leiðtoga. 

Á undanförnum mánuðum hafa sveitir Ríkis íslams í Vestur-Afríku fjölgað árásum á kristið fólk, öryggissveitir og starfsmenn hjálparsamtaka. Á áratug hafa 36.000 manns látist og um tvær milljónir borgara þurft að yfirgefa heimilis sín í Nígeríu vegna uppgangs hryðjuverkasveita í landinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert