Þrjár mæðgur látnar eftir eldsvoða

Bergen við vesturströnd Noregs. Þrjár mæðgur eru látnar eftir eldsvoða …
Bergen við vesturströnd Noregs. Þrjár mæðgur eru látnar eftir eldsvoða í parhúsi þar um helgina og ástand þriðja barnsins tvísýnt. Ljósmynd/Wikipedia/Tomoyoshi NOGUCHI

Þrjár mæðgur, rúmlega fertug móðir og níu og 14 ára gamlar dætur hennar, eru látnar eftir að eldur kom upp í parhúsi í Ytrebygda í Bergen í Noregi snemma á laugardagsmorgun. Slökkvilið kom á staðinn á sjöunda tímanum að norskum tíma þá um morguninn og var íbúðin þá full af reyk. Voru reykkafarar þegar sendir inn í íbúðina þar sem þeir fundu konuna ásamt þremur börnum og voru öll flutt með hraði á Haukeland-sjúkrahúsið.

Tvennt komst af eigin rammleik út úr hinni íbúðinni, fullorðinn einstaklingur og barn.

Seint á laugardagskvöld var níu ára gömul stúlka úrskurðuð látin og nú í morgun bárust þær fréttir að móðirin og önnur dóttir hennar hefðu látist í nótt.

Ástand þriðja barnsins tvísýnt

Björgvinjarbúar eru harmi slegnir og hafa mörg hundruð manns lagt leið sína á Haukeland-sjúkrahúsið síðan um helgina auk þess sem á sunnudagskvöldið var haldin samkoma fyrir vini og ættingja fjölskyldunnar og áfallahjálparteymi voru til staðar í grunnskólum barnanna í gær.

Samkvæmt upplýsingum frá Helse Bergen, rekstraraðila sjúkrahúsa borgarinnar, er ástand þriðja barnsins enn tvísýnt.

Enn er ekkert ljóst um eldsupptök en lögreglan í Bergen hefur fengið rannsóknarteymi frá rannsóknarlögreglunni Kripos sér til fulltingis og hafa tæknimenn Kripos verið við vinnu á vettvangi síðan í gær. Torgils Lutro, þjónustustjóri lögreglustöðvarinnar í Bergen, segir þó engar grunsemdir um að saknæm háttsemi hafi átt sér stað, málið sé hins vegar það alvarlegt að lögregla hafi ákveðið að biðja um aðstoð frá Kripos við rannsókn á eldsupptökum.

VG

VGII

VGIII

NRK

NRKII

Bergensavisen

mbl.is