Eyjaskeggjar hafa fengið nóg

Þúsundir íbúa grísku eyjanna Lesbos, Samos og Chios lögðu niður störf í sólarhring til þess að mótmæla því hvernig grísk stjórnvöld taka á málefnum flóttafólks sem kemur til eyjanna þriggja. 

Móðir og barn í Moria-flóttamannabúðunum á Lesbos í vikunni.
Móðir og barn í Moria-flóttamannabúðunum á Lesbos í vikunni. AFP

Samkvæmt upplýsingum frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) hafa eyjaskeggjar verið ósáttir við hversu illa ríkisstjórnin hefur staðið að flutningum flóttafólks frá eyjunum á meginlandið en þar eru núna um 36 þúsund flóttamenn og hælisleitendur. 

AFP

Á sama tíma ríkir mikil spenna í þeim búðum sem eru starfræktar á eyjunum. Á mánudag var 17 ára afgönsk stúlka lögð inn á sjúkrahús eftir að hafa verið stungin af samlanda sínum í Moria-flóttamannabúðunum á Lesbos. Frá því um áramótin hafa tveir íbúar Moria, annar frá Austur-Kongó og hinn frá Jemen, látist eftir hnífstungur í búðunum. 

AFP

Allar verslanir voru lokaðar og opinber þjónusta lá niðri á eyjunum þremur í gær þar sem fólk krafðist þess að hælisleitendur yrðu fjarlægðir strax af eyjunum. Margir voru með gríska fána á mótmælafundum í bæjum á eyjunum. Við hafnarbakkann í Mitilini á Lesbos tóku fjölmargir þátt í mótmælum og söngluðu mótmælendur: „Eyjarnar okkar eru ekki fangelsi. Lokið öllum búðunum strax.“

Frá mótmælum við höfnina í Mitilene á Lesbos í gær.
Frá mótmælum við höfnina í Mitilene á Lesbos í gær. AFP

Ein þeirra, Vassiliki Ververi, sagði í samtali við AFP-fréttastofuna að eyjaskeggjar verði brátt í minnihluta á eyjunum og það séu Grikkland og eyjarnar sem gjaldi fyrir straum hælisleitenda til Evrópu.  

Ráðherra flóttamanna- og hælisleitenda, Notis Mitarachi, segir reiði fólks skiljanlega og það valdi vonbrigðum að íbúar eyjanna þurfi að bera þessar byrðar. Mitarachi, sem tók við ráðherraembætti í síðustu viku, er þingmaður Chios á gríska þjóðþinginu.

Vial-flóttamannabúðirnar á Chios.
Vial-flóttamannabúðirnar á Chios. AFP

Í Moria er rými fyrir 2.840 en þar eru nú 19 þúsund hælisleitendur. Á Samos eru um 7.500 manns í flóttamannabúðum en þar er rými fyrir 650 manns. Á Chios eru um 5 þúsund hælisleitendur en búðirnar þar eru hannaðar fyrir þúsund manns.

Á hverjum degi koma tugir flóttamanna sjóleiðina til eyjanna í Eyjahafi frá Tyrklandi. Í nóvember greindi ríkisstjórnin frá áætlunum sínum um að byggja stærri búðir á Lesbos, Chios, Smaos, Kos og Leros en alls eru 42 þúsund flóttamenn og hælisleitendur á eyjunum. Ítrekað hefur komið til ofbeldis þeirra á milli og eins hafa þrír tekið eigið líf á stuttum tíma í búðunum. 

Hýbýli flóttafólks á Samos.
Hýbýli flóttafólks á Samos. AFP

„Þeir verða að fara. Það er ekki það að mér líki illa við þá en þeir búa við ömurlegar aðstæður. Það er erfitt fyrir þá og einnig fyrir okkur,“ segir Zoi Yannaka en hún tók þátt í mómælafundi kommúnista á Lesbos í gær. 

Yfir 59 þúsund flóttamenn komu sjóleiðina til Grikklands í fyrra og 14 þúsund komu landleiðina. Það sem af er ári hafa yfir þrjú þúsund flóttamenn og hælisleitendur komið til Grikklands en margir þeirra eru að flýja stríð og fátækt í ríkjum sunnan Sahara í Afríku, Suður-Asíu og Sýrlandi.

AFP

Á þriðjudag vöruðu 17 mannúðarsamtök grísku ríkisstjórnina við auknu útlendingahatri og mismunun gagnvart hælisleitendum og þeim alvarlegu áhrifum sem þetta hefur á líðan þeirra. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert