Dæmdir fyrir stuld á 100 kg gullmynt

Big Maple Leaf-gullpeningurinn sem var stolið 2017.
Big Maple Leaf-gullpeningurinn sem var stolið 2017. AFP

Þrír ungir menn voru í dag dæmdir í nokkurra ára fangelsi í Berlín fyrir að hafa stolið 100 kg gullmynt í einu listasafna borgarinnar.

Tveir mannanna, annar er 21 árs og hinn 23 ára, voru dæmdir í fjögurra og hálfs árs fangelsi hvor en þeir tengjast báðir skipulagðri glæpastarfsemi í Berlín. Þriðji maðurinn, 21 árs gamall öryggisvörður á listasafninu, var dæmdur í þriggja ára og fjögurra mánaða fangelsi fyrir aðild að ráninu. Fjórði maðurinn var sýknaður af öllum ákæruliðum. 

Hvorki tangur né tetur hefur fundist af 100 kg gullmyntinni frá því henni var stolið í mars 2017 af Bode-safninu. Myntin sem var stolið er kanadísk og nefnist Big Maple Leaf og er ein af fimm sem var slegin árið 2007. Hún er önnur stærsta mynt sem slegin hefur verið. Sú stærsta og um leið þyngsta er áströlsk og vegur eitt tonn.

Saksóknarar telja að myntin hafi annaðhvort verið skorin niður, brædd eða seld úr landi. Myntin sjálf er metin á eina milljón Kanadadollara, sem svarar til 96 milljóna króna, en gullið í henni er mun verðmætara. 

Við húsleit lögreglu á stöðum tengdum Remmo-glæpagenginu í Berlín og víðar í júlí 2017 var lagt hald á byssur, lúxusbifreiðar og yfir 100 þúsund evrur í reiðufé. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert