„Þetta er eins og stríðssvæði“

Gjörgæsludeildir í New York eru við það að springa á sama tíma og dauðsföllum fjölgar jafnt og þétt. Um helgina lést fyrsta barnið í borginni og sjúkraflutningafólk hefur aldrei upplifað aðra eins tíma. Hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin 11. september 2001 eru hjóm eitt miðað við kórónuveiruna. Stjórnendur gjörgæsludeilda biðla nú til skurðlækna um að koma til starfa á gjörgæsludeildunum þar sem ástandið sé orðið óviðráðanlegt.

Verið er að reisa bráðabirgðasjúkrahús í Central Park.
Verið er að reisa bráðabirgðasjúkrahús í Central Park. AFP

Í gær var tilkynnt um 161 dauðsfall í New York-borg á einni nóttu. Það þýðir að yfir eitt þúsund eru látnir í ríkinu öllu. Þar á meðal var barn yngra en 18 ára en ekki hefur verið upplýst um annað en að sjúklingurinn hafi verið með undirliggjandi sjúkdóma. 

AFP

Undanfarna daga hefur Neyðarlínan tekið við meira en sjö þúsund símtölum á dag sem er svipað og var 11. september 2001. Borgarstjórinn í New York, Bill de Blasio, segir að reynt verði að bregðast við með fjölgun sjúkrabíla og sjúkraflutningamanna um leið og vöktum verði fjölgað. „Þetta er dæmalaust ásand. Við höfum aldrei séð Neyðarlínuna hjá okkur fá jafn mörg símtöl, aldrei,“ sagði Blasio á fundi með fréttamönnum um helgina. 

AFP

Hann segir að fleiri heilbrigðisstarfsmenn hafi verið sendir til starfa í Queens vegna ástandsins á sjúkrahúsum þar og Blasio varar við því að ástandið verði síst betra næstu vikur. 

Leikvellir verða áfram opnir í New York en lögregla mun fylgjast grannt með því að reglur um fjarlægð milli einstaklinga verði virt. Ef tilmæli lögreglu eru virt að vettugi má sekta viðkomandi. 

AFP

Á sama tíma fylgjast borgarbúar með risavöxnu bráðabirgðasjúkrahúsi rísa í einu helsta kennileiti New York borgar, Central Park. Sjúkrahúsið er reist af Mt. Sinai-sjúkrahússkerfinu og þar verður hægt að taka á móti 68 sjúklingum. Blasio á von á að það taki við fyrstu sjúklingunum á morgun. 

„Við munum nýta allt það pláss sem við þurfum til að hjálpa fólki,“ sagði de Blasio við fréttamenn í gær. 

AFP

Blaðamenn New York Times hafa undanfarna daga fylgst með störfum sjúkraflutningafólks í borginni og margt þeirra er komið af fótum fram vegna álagsins. Einn þeirra sem er fluttur á sjúkrahús á vaktinni í liðinni viku er 24 ára gamall maður með 39,5 stiga hita, beinverki og hósta sem minnti helst á steypuhrærivél. Allt bendir til kórónuveirunnar þar sem hættulega lítið súrefnisflæði er til lungna mannsins þrátt fyrir að ekkert annað ami að lungum hans. Hjartslátturinn er ör og minnir helst á hjá maraþonhlaupara.

AFP

Bráðaliðarnir eru varla komnir með hann á sjúkrahús þegar næsti flutningur hefst, 73 ára gamall maður með sömu einkenni. „Þetta er eins og stríðssvæði,“ segir sjúkraflutningamaður. 

Annar sjúkraflutningamaður lýsir ótta sínum við að smitast sjálfur og smita fjölskyldu sína. „Ég veit hreinlega ekki hvort ég muni hafa þetta af. Ég óttast hvað ég hef kannski nú þegar komið með heim.“

AFP

Þetta er einn þeirra sem var á vakt 11. september 2001 og var síðar hluti af herliði Bandaríkjanna í Írak. Óttinn nú er miklu meiri.

Þrátt fyrir alla spítalana í New York er ekki hægt að taka við öllum. Sumir fá einfaldlega ekki að leggjast inn þrátt fyrir að þurfa á því að halda. Ástandið í New York er svipað því sem íbúar Wuhan upplifðu og íbúar í Lombardia-héraði á Ítalíu. 

AFP

Tómar rafhlöður og sjálfsvígstilraunir

Einn sjúkraflutningamaður lýsir fyrir NYT útkalli sem hann fékk vegna sjálfsvígstilraunar konu um fimmtugt. Hún hafði drukkið einn lítra af vodka eftir að krabbameinsmeðferð hennar var frestað. Enda starfsmenn sjúkrahússins að taka kórónuveirusjúklinga inn á krabbameinsdeildir. 

Annar lýsir því að rafhlaðan í hjartastuðtækinu hafi tæmst á vaktinni vegna þess að viðkomandi þurfti að beita því svo oft við endurlífgun á einni vakt. „Það skiptir engu hver þú ert. Það skiptir engu hversu mikla peninga þú átt. Veiran kemur jafnt fram við alla,“ segir sjúkraflutningamaðurinn sem starfar í Brooklyn. 

Líkt og margir læknar og hjúkrunarfræðingar eru margir sjúkraflutningamenn komnir með veiruna og hafa borið veiruna til síns heima.18. mars voru þrír slökkviliðsmenn greindir með veiruna. Á föstudag voru þeir 206 talsins.

AFP

Anthony Almojera, varðstjóri í slökkviliðinu, segir að hann hafi í fyrsta skipti á 17 ára ferli brostið í grát á vaktinni.

Hann og teymið hans hafði svarað kalli um að kona, sem er heilbrigðisstarfsmaður, hafi fengið hjartastopp á heimili sínu. Konan var á miðjum aldri og hafði smitast af kórónuveirunni. Þegar sjúkraflutningamennirnir komu heim til hennar greindi eiginmaður hennar, en hann er einnig heilbrigðisstarfsmaður, þeim frá því að hún hefði verið veik í fimm daga.

„Þannig að við yfirgáfum hann“

Eiginmaðurinn sagði þeim frá því að hann hafi beðið um að vera heima og sinna konu sinni en yfirmaður hans neitaði því deildin sem hann starfar á er yfirfull af fólki með kórónuveiruna. Þannig að hann fór til vinnu. Þegar hann kom heim að lokinni vakt fann hann eiginkonu sína meðvitundarlausa í rúminu. Í 35 mínútur reyndi teymið hans  Almojera að lífga hana við en það var of seint.

AFP

Að sögn Almojera reynir hann yfirleitt að votta fjölskyldum sem hafa misst ástvin samúð með því að faðma fólk. En þar sem talið er að eiginmaðurinn sé líka smitaður færði Almojera honum sorgarfregnina í tveggja metra fjarlægð. Hann horfði á manninn falla á jörðina.

„Ég gat ekkert gert annað en að gæta að því að halda mig fjarri honum,“ segir Almojera.„Þannig að við yfirgáfum hann.“

AFP

Læknar við sjúkrahús í New York segja ástandið ólýsanlegt, læknar og aðrir starfsmenn veikjast hver af öðrum og enginn veit hver verður næstur. „Mér líður eins og það sé verið að leiða okkur alla til slátrunar,“ segir Thomas Riley, hjúkrunarfræðingur við Jacobi Medical Center í Bronx, en hann er sjálfur smitaður sem og eiginmaður hans. 



Guardian

BBC

CNN

AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert