46 þúsund dánir í Evrópu

AFP

Yfir 46 þúsund eru látnir vegna kórónuveirunnar í Evrópu. 85% þeirra hafa látist í fjórum ríkjum: Ítalíu, Spáni, Frakklandi og Bretlandi.

Samkvæmt tölum AFP-fréttastofunnar eru 46.033 látnir í Evrópu af þeim 627.203 sem hafa smitast í álfunni afCOVID-19. Á Ítalíu og Spáni eru flest dauðsföllin enn sem komið er í heiminum en í báðum löndunum virðist sem staðan sé heldur að skána.Til að mynda hefur fækkað á gjörgæsludeildum ítalskra sjúkrahúsa og á Spáni hefur einnig dregið úr þeim fjölda sem deyr á hverjum sólarhring. Alls eru 15.362 látnir á Ítalíu og 11.744 á Spáni. Í Frakklandi eru 7.560 látnir og 4.313 í Bretlandi.

AFP

Forsætisráðherra Spánar, Pedro Sanchez, greindi frá því í dag að útgöngubannið yrði framlengt en þar var neyðarástandi fyrst lýst yfir 15. mars. Átti því að ljúka 11. apríl en hefur nú verið ákveðið að óska efir heimild þingsins á þriðjudag til að framlengja það til miðnættis 25. apríl. Það þýðir að áfram má fólk ekki yfirgefa heimili sín nema bráða nauðsyn beri til. 

Sanchez segir að þetta sé sá tími sem heilbrigðiskerfið þarf til að ná sér. Sjúkrahús eru yfirfull á Spáni, sérstaklega gjörgæsludeildir, af fólki sem er veikt af kórónuveirunni. 

AFP

Á Ítalíu hefur fólki fækkað sem liggur á gjörgæsludeildum í fyrsta skipti síðan veiran gerði strandhögg þar í landi. Að sögn yfirmanns almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, Angelos Borellis, lágu 3.994 á gjörgæsludeildum landsins í dag en í gær voru þeir 4.068 talsins. Segir hann að þetta sé merkur áfangi í baráttunni við COVID-19.

AFP

„Þetta eru mikilvægar tölulegar staðreyndir því talan lækkar í fyrsta skipti,“ segir Borelli. „Þetta er mikilvægt því þetta veitir sjúkrahúsum okkar tíma til að ná andanum. Þetta er í fyrsta skipti sem talan lækkar síðan við fórum að takast á við neyðarástandið.“

mbl.is

Kórónuveiran

29. maí 2020 kl. 13:30
1
virk
smit
1794
hafa
náð sér
0
liggur á
spítala
10
eru
látnir