Draumaferðinni til Íslands aflýst

Bærinn Hamnvåg er ekki langt frá Tromsø í fylkinu Troms …
Bærinn Hamnvåg er ekki langt frá Tromsø í fylkinu Troms í Norður-Noregi. Ljósmynd/Wikipedia.org/Svein-Magne Tunli

Ljóst er að Íslendingar á leið til útlanda eru ekki þeir einu sem gráta að þurfa að aflýsa ferðalögum vegna kórónuveirunnar. Hópur tíu skólabarna í 5.-7. bekk í bænum Hamnvåg, stutt frá Tromsø í Norður-Noregi, syrgir nú að þurfa að aflýsa draumaferðinni, skólaferð sinni til Íslands. Þetta er haft eftir skólameistaranum Bjørn Toldnes í Montessoriskólanum í Hamnvåg, sem í samtali við  fréttamiðilinn Nye Troms segir að Íslandsferðin sé orðin hefð hjá skólanum og margir séu svekktir vegna þess að henni hafi verið aflýst.

„Fyrri ferðir hafa verið mjög lærdómsríkar og heppnast vel, og við hlökkuðum mikið til að fara í þessa ferð. Nemendurnir hafa verið duglegir að safna fyrir ferðinni, en eins og ástandið er núna hvað varðar kórónuveiruna urðum við bara að aflýsa ferðinni,“ segir Toldnes og segir að tíu nemendur, tveir kennarar og einn aðstoðarmaður hafi átt að fara í ferðina. Á dagskránni var að skoða Gullfoss og Geysi, fara í Bláa lónið, ríða út á íslenskum hestum og skoða Þingvelli.

Toldnes segir að nú þurfi að leita annarra kosta hvað varðar ferð sem hægt er að fara í þegar aðstæður leyfa. Það muni kannski ekki finnast neitt jafn spennandi og Ísland en ýmsir ferðamöguleikar séu í nærumhverfinu. 

mbl.is