Aflýsa öllum ferðum

Þrjár stórar ferðaskrifstofur í Noregi, þar á meðal TUI, stærsta …
Þrjár stórar ferðaskrifstofur í Noregi, þar á meðal TUI, stærsta ferðaskrifstofa heims, hafa aflýst öllum ferðum sínum fram til 20. ágúst í kjölfar blaðamannafundar ríkisstjórnarinnar á föstudaginn þar sem Norðmönnum var eindregið ráðlagt að fara ekki utan í sumar. Ljósmynd/Ving

Noregsútibú ferðarisanna Apollo, Ving og stærstu ferðaskrifstofu heims, TUI, hafa aflýst öllum ferðum sínum fram til 20. ágúst í kjölfar þeirra eindregnu tilmæla ríkisstjórnar Noregs á blaðamannafundi í síðustu viku, að Norðmenn ferðuðust ekki til útlanda í sumar, að minnsta kosti ekki annarra útlanda en þeirra sem teljast til Norðurlandanna verði af því að norrænu ríkin gefi grænt ljós á frístundaferðalög sín á milli í júní eins og nú er stefnt að.

Ferðaskrifstofurnar þrjár komu þessum tíðindum á framfæri á heimasíðum sínum í gær. „Með þessu fyrirkomulagi geta viðskiptavinir okkar lagt á ráðin um annars konar ferðalög í sumar á meðan við hjá Ving skipuleggjum nýjar og spennandi ferðir í haust og vetur,“ kom fram í tilkynningu Ving sem auk þess boðaði að haft yrði samband við þá viðskiptavini sem voru á leið í ferðir sem falla niður.

„Þetta er bein afleiðing af þeirri óvissu sem fyrirtækin standa nú frammi fyrir eftir að ríkisstjórnin kynnti nýju ferðaráðin,“ segir Astrid Bergmål, formaður Virke reiseliv, en Virke eru vinnuveitendasamtök viðskipta- og þjónustugeirans í Noregi. „Ferðaráðin skapa svo mikla óvissu að margir sjá nú sína sæng upp reidda og telja sig ekki eiga aðra kosti en að aflýsa öllu. Þetta þykir okkur mjög súrt í broti því alþjóðleg ferðaþjónusta verður að komast í gang,“ segir Bergmål við viðskiptavefmiðilinn E24 í dag.

Hún telur ríkisstjórnina hafa átt að gefa út ferðaráð með meiri fyrirsjáanleika eða að minnsta kosti sleppa því að nefna tímasetningar og stefna heldur að því að opna landamæri svo fljótt sem verða mætti með ábyrgum hætti.

32.000 fyrir barðinu hjá Ving

Siri Røhr-Staff, upplýsingafulltrúi Ving, segir 32.000 viðskiptavini ferðaskrifstofunnar verða fyrir áhrifum af ákvörðun stofunnar um að aflýsa öllum ferðum í sumar. „Allri atvinnugreininni blæðir. Ferðaráðin eru óskýr og við hefðum getað ákveðið að bíða átekta, en við þurftum að taka ákvörðun núna, hvort tveggja fyrir viðskiptavini okkar og okkur sjálf,“ segir hún og bætir því við að þeir sem eigi pantaðar ferðir fái tölvupóst á næstunni  með nánari upplýsingum.

Upplýsingafulltrúinn segir ekki hafa verið reiknað út hvað niðurfelldu ferðirnar kosti ferðaskrifstofuna en þess má geta að 12. maí kynnti Jan Tore Sanner fjármálaráðherra aðgerðapakka upp á jafnvirði 6.000 milljarða íslenskra króna sem tekinn yrði út úr olíusjóði Norðmanna til að koma landi og þjóð gegnum boðaföllin. Voru þar af tveir milljarðar, 28,6 milljarðar íslenskra króna, eyrnamerktir ferðaskrifstofum til að standa straum af endurgreiðslum pakkaferða sem ekki yrðu farnar.

Hjá TUI er heldur ekki vitað um tap í krónum talið að sögn Noru Aspengren, upplýsingafulltrúa þar á bæ, sem segir ekki einu sinni ljóst enn sem komið er hve stór hópur viðskiptavina missi af sumarferðalaginu eftir að ferðaskrifstofan lagði allar sínar ferðir á ís fram á haust.

E24

Dagens Næringsliv

TV2

Finansavisen

mbl.is

Bloggað um fréttina