Rannsókn hætt á blaðakonu

Annika Smethurst, blaðamaður hjá News Corp.
Annika Smethurst, blaðamaður hjá News Corp. Twitter

Ástralska lögreglan hefur hætt rannsókn á blaðakonu sem skrifar um stjórnmál fyrir News Corp, fjölmiðlaveldi Ruperts Murdoch, í Ástralíu. Málið snerist um uppljóstranir á ríkisleyndarmálum í grein árið 2018. Mjög hefur verið tekist á um málið og ekki síst um fjölmiðlafrelsi í landinu. 

Alríkislögreglan greindi frá því í dag að Annika Smethurst yrði ekki saksótt vegna greinar þar sem staðhæft var að ríkisstjórnin ætlaði sér að sækja sér frekari heimildir til að njósna um ástralska ríkisborgara. Í gær kom út bók eftir Smethurst um málið og áhrif þess á hana og frelsi fjölmiðla.

Eins hefur lögreglan hætt rannsókn á manneskju sem er grunuð um að hafa lekið skjölunum sem Smethurst byggði fréttaflutning sinn á. 

Hæstiréttur dæmdi haldlagningu ólöglega

Sex vikur eru síðan hæstiréttur Ástralíu ógilti húsleitarheimild sem lögreglan notaði til að leita á heimili Smethurst í júní í fyrra en húsleitin var hluti af rannsókn lögreglu á hvaðan lekinn kom. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að haldlagning lögreglu á gögnum úr síma Smethurst og fartölvu væri ólögleg. 

Um ríkisleyndarmál er  að ræða frá leyniþjónustustofnun Ástralíu, Australian Signals Directorate intelligence Agency, og fleiri opinberum stofnunum.

Ian McCartney, aðstoðaryfirlögregluþjónn alríkislögreglunnar, sagði að í kjölfar úrskurðar hæstaréttar hefði rannsóknin verið endurskoðuð og talið var að ekki væru nægar sannanir fyrir hendi til þess að halda henni áfram.

„Enginn verður saksóttur í tengslum við þessa óheimilu uppljóstrun,“ sagði McCartney á fundi með blaðamönnum í dag.

Enn rannsókn í gangi á fréttamönnum ABC

Daginn eftir húsleit á heimili Smethurst gerði lögreglan einnig húsleit í höfuðstöðvum sjónvarpsstöðvarinnar ABC. Þar var reynt að hafa uppi á gögnum tengdum öðrum uppljóstrara sem veitti upplýsingar í tengslum við fréttaflutning ABC á mögulegum stríðsglæpum ástralskra hermanna í Afganistan.

Tveir fréttamenn ABC eru enn til rannsóknar og hvatti fréttastjóri ABC, Gaven Morris, lögreglu til að hætta einnig þeirri rannsókn.

Aðgerðir lögreglu gegn Smethurst og ABC ollu mikilli reiði og mótmælum af hálfu fjölmiðla og samtaka um borgaraleg réttindi. News Corp varaði meðal annars við hættulegum afskiptum. Ólíkt mörgum vestrænum ríkjum er tjáningarfrelsið ekki stjórnarskrárvarinn réttur né heldur eru lög um vernd uppljóstrara en nýlega voru slík lög samþykkt á Alþingi Íslands. 

Stóðu ástralskir fjölmiðlar saman gegn lögreglu í málinu og hvöttu í sameiningu til þess að lög yrðu sett til að vernda blaðamenn og blaðamennsku. Það sem helst vakti reiði var að lögreglan neitaði að hætta við ákæru á hendur blaðamönnum sem birtu fréttir byggðar á ríkisleyndarmálum sem hafði verið lekið til þeirra. 

Bók Annika Smethurst um málið, On Secrets.
Bók Annika Smethurst um málið, On Secrets.

Forsætisráðherra Ástralíu, Scott Morrison, hefur alla tíð sagt að stjórnvöld hafi ekki átt neina aðild að rannsókn lögreglu en í kjölfar mótmæla hafa alríkislögreglan og ríkisstjórnin greint frá því að lagðar verði fram nýjar viðmiðunarreglur varðandi rannsóknir á blaðamönnum. Aftur á móti verði að taka á slíkum leka á ríkisleyndarmálum og blaðamenn séu ekki hafnir yfir lög. 

Ákvörðun lögreglu um að falla frá rannsókn á  Smethurst kemur í kjölfar útgáfu bókarinnar On Secrets sem gefin var út í gær. Þar fjallar Smethurst um áhrif húsleitarinnar á hana sjálfa og frelsi fjölmiðla í Ástralíu. 

Stjórnarformaður News Corp Australia, Michael Miller, fagnar ákvörðun lögreglu og segir að  heilbrigð skynsemi hafi haft betur. Hann minnir aftur á móti á að Smethurst hafi þurft að búa við það í tæpt ár að eiga von á fangelsisdómi fyrir að sinna starfi sínu — að upplýsa áströlsku þjóðina um málefni sem skipti miklu máli. 

Frétt Washington Post

Frétt 9News

Frétt Sydney Herald

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert