Beittu piparúða á mótmælendur

Mikill fjöldi kom saman í miðborg Stokkhólms í gærkvöldi til að mótmæla kynþáttahatri. Lögreglan handtók tvo og beitti piparúða á mannfjöldann en reglur um samkomubann voru þverbrotnar þar sem um átta þúsund manns tóku þátt í mótmælunum.

Skipuleggjendur mótmælanna fengu leyfi fyrir atburðinum og átti hann að standa yfir á milli 18 og 20. Heimildin var afturkölluð þegar ljóst var hversu margir ætluðu að taka þátt en í Svíþjóð er bannað að fleiri en 50 komi saman vegna kórónuveirunnar.

Mótmælin í Stokkhólmi voru haldin líkt og víðast hvar í heiminum vegna dráps bandarísks lögreglumanns á George Floyd í síðustu viku.

Talsmaður lögreglunnar í Stokkhólmi, Mats Eriksson, staðfestir við TT fréttastofuna að tveir hafi verið handteknir en ekki hafi verið tilkynnt um nein meiðsl á fólki. Hann segir að mestu hafi mótmælin á Sergels-torgi farið friðsamlega fram.

Í Aþenu köstuðu mótmælendur bensínsprengjum að óeirðarlögreglu í gærkvöldi en þar var einnig verið að mótmæla kynþáttahatri og ofbeldi af hálfu lögreglu. Samkvæmt frétt AFP-fréttastofunnar var það hópur ungmenna sem kastaði bensínsprengjunum að lögreglu skammt frá sendiráði Bandaríkjanna í höfuðborginni. Beitti lögregla táragasi á mómælendur í kjölfarið.

Um þrjú þúsund tóku þátt í mótmælum í Helsinki í gærkvöldi og segir einn þeirra, Omar, í samtali við AFP að rasismi sé vandamál alls staðar, líka í Finnlandi. Á börum, næturklúbbum, verslunarmiðstöðvum — alls staðar segir Omar en hann hefur búið í Finnlandi í 16 ár en kemur upprunalega frá Gana. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert