Eiga það sameiginlegt að krefjast réttlætis

AFP

Gríðarlegur mannfjöldi er saman kominn í miðborg Washington mótmæla drápinu á George Floyd og til að sýna samstöðu gegn óréttlæti sem svartir Bandaríkjamenn mæta. Lögreglan hefur girt af stórt svæði í kringum Hvíta húsið með hárri svartri járngirðingu en fólk lætur það ekki stöðva sig ekkert frekar en COVID-19 til að sýna samlöndum sínum samstöðu. 

Fréttamenn AFP-fréttastofunnar segja að þátttakendur séu á öllum aldri og af ólíkum kynþáttum. Þeir eiga það allir sameiginlegt að krefjast jafnrétti kynþátta. 

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, fylgist með og skrifar á Twitter: Lög og regla með hástöfum. Hann fagnar einnig stöðu sinni innan Repúblikanaflokksins. 

Þessi barátta hefur staðið yfir í áratugi, öldum saman og það er orðið tímabært að breyta þessu og gera framtíðina bjartari segir Christine Montgomery sem er ein þeirra fjölmörgu sem tekur þátt ásamt tíu ára gömlum syni sínum. „Ég er hér svo sonur minn verði ekki að því myllumerki sem hefur verið dreift um heiminn.“

AFP

Einhverjir mótmælenda voru með spjöld með myndum af Floyd og öðrum svörtum Bandaríkjamönnum sem hafa verið drepnir af lögreglu. Afar heitt er í höfuðborginni og dreifða sjálfboðaliðar vatni og öðrum vistum til þátttakenda. 

AFP

Herinn fylgist grannt með og þyrlur sveima yfir svæðið þar sem fólkið er samankomið, bæði við Hvíta húsið og í kringum Lincoln Memorial minnismerkið í Washington þar sem Martin Luther King flutti ræðu sína „I Have a Dream“ eða „Ég á mér draum“ fyrir framan 200 þúsund áhorfendur árið 1963.

AFP

Deniece Laurent-Mantey er ein þeirra fjölmörgu sem þar eru og segir hún að svartir Bandaríkjamenn séu þar samankomnir til að koma skilaboðum sínum á framfæri. Að þau láti kerfið ekki stöðva sig. „Martin Luther King stóð hér og nú eftir svo mörg ár erum við komin hingað aftur með ný skilaboð og nýja von.“

AFP

Talið er að mótmælin nú séu þau mestu í Bandaríkjunum frá því King var myrtur árið 1968 þegar hann var á Hótel Lorraine í Memphis í Tennesse. Hann hafði farið þangað til þess að sýna stuðning sinn við verkfall sorphreinsunarmanna í borginni.

King var skotinn til bana þar sem hann stóð á svölum hótelsins og spjallaði við félaga sína. Maður að nafni James Earl Ray játaði að hafa framið morðið og var hann dæmdur í 99 ára fangelsi.

Sjá nánar á Vísindavef Háskóla Íslands

Þegar þetta er ritað tæplega ellefu á laugardagskvöldi eru mótmælin friðsamleg og það sama á við mótmæli víða um Bandaríkin. 

Í dag var haldin minningarathöfn um Floyd í Raeford Norður-Karólínu þar sem hann fæddist. Á fimmtudag var haldin minningarathöfn um hann í  Minneapolis en útför Floyds fer fram í Houston 9. júní. 

AFP

Patricia Thompson, bandarísk kona á sextugsaldri, er fyrir utan Hvíta húsið ásamt fjölskyldu sinni. Hún segist vonast til þess að mótmælin nú marki straumhvörf í bandarískri sögu. „Mér líður eins og við höfum barist og barist og allt í einu rofað til,“ segir hún og vísar þar til samvinnu almennra borgara og samtaka sem hafa sameinast í að standa gegn rasisma.

AFP

Í gær kynnti borgarstjórinn í Washington, Muriel Bowser, nýja götuskreytingu þar sem stendur gulum stöfum Black Lives Matter — skreyting sem liggur að Hvíta húsinu. 

Í Evrópu hefur víða verið mótmælt og í London komu fleiri þúsundir saman líkt og víðar. Eitthvað hefur komið til árekstra á milli lögreglu og mótmælenda þar en að mestu leyti hafa þau verið friðsöm. Enn er mikill mannfjöldi á götum úti í miðborginni og óvíst hvernig mál þróast þegar líður á nóttina.

Frétt Guardian

Frétt Sky

Í Indianapolis hefur lögregla hafið rannsókn á atviki sem náðist á myndband þar sem fjórir lögreglumenn hið minnsta sjást berja konu með kylfum og sprauta piparúða á hana í síðustu viku. 

Til átaka kom á milli lögreglu og mótmælenda í London …
Til átaka kom á milli lögreglu og mótmælenda í London í kvöld. AFP

Í Seattle tilkynntu borgarstjórinn og lögreglustjórinn í sameiningu um tímabundið bann við notkun á táragasi.

Í Denver hefur alríkisdómari lagt bann við notkun efna og gúmmíkúlna á fólk sem er að mótmæla friðsamlega.

Í Dallas tóku fjölmargir lögreglumenn þátt í samstöðugöngu með mótmælendum.

AFP

Mótmælin eru sennilega eitt erfiðasta verkefnið sem Donald Trump hefur staðið frammi fyrir í forsetatíð sinni. Hann fordæmdi drápið á Floyd en hefur samt sýnt hörku gagnvart mótmælendum, kallað þá óþokka og hryðjuverkamenn og eins hefur hann verið sakaður um að ýta undir vaxandi spennu. 

AFP

Mannréttindasamtök hafa höfðað mál gegn Trump eftir að sérsveitir skutu piparboltum og reyksprengjum að mótmælendum í Washington í vikunni. Var verið að rýma torgið þar sem fólkið mótmælti friðsamlega áður en Trump gekk þar um til þess að láta taka mynd af sér með Biblíu í hönd fyrir utan kirkju. 

Hér er hægt að fylgjast með á New York Times

Washington Post

AFP
AFP
AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert