Hefja morðrannsókn að nýju

Fangelsið þar sem Christian B. afplánar dóm.
Fangelsið þar sem Christian B. afplánar dóm. AFP

Rannsókn er hafin að nýju á morði þýskrar unglingsstúlku í Belgíu árið 1996 vegna mögulegra tengsla málsins við Þjóðverjann sem er grunaður um að hafa myrt bresku stúlkuna Madeleine McCann.

Saksóknari í belgísku borginni Brugge hefur ákveðið að opna að nýju rannsókn á morðinu á Carola Titze, 16 ára, en lík hennar fannst limlest í strandbænum De Haan í júlí 1996. 

Titze var þar í sumarleyfi ásamt foreldrum sínum og beindist rannsókn lögreglu að rúmlega tvítugum Þjóðverja. Maðurinn hafði stært sig af fyrri glæpum við stúlkuna að því er fram kemur í fréttum belgískra fjölmiðla. Maðurinn fannst aldrei.

Carola Titze.
Carola Titze. AFP

Í kjölfar upplýsinga sem hafa komið fram varðandi hvarf Madeleine McCann og aðild þýsks fanga að því sagði Paul Gevaert, sem stýrði rannsókninni á morðinu á Titze, að hann væri sannfærður um að tengsl væru á milli málanna. Gevaert er kominn á eftirlaun í dag.

Maðurinn, Christian B., hefur verið dæmdur fyrir kynferðisbrot, bæði barnaníð og nauðgun.

Gevaert segir í viðtali við De Standaard að lýsingin Christian B., sem er 43 ára í dag, passi við unga manninn sem var grunaður um að hafa átt aðild að morðinu 1996. Málinu var lokað árið 2016 sem óupplýst sakamál. 

Christian Brueckner er grunaður um að hafa átt aðild að …
Christian Brueckner er grunaður um að hafa átt aðild að hvarfi Madeleine McCann. AFP

McCann hvarf úr íbúð sem hún var í ásamt fjölskyldu sinni á hóteli í Portúgal 3. maí árið 2007. Hvarf hennar er sennilega eitt þekktasta barnshvarfsmál seinni tíma.

Þýska lögreglan greindi frá því í síðustu viku að jafnvel væri málið að leysast og upplýsti um rannsóknina á Christian B. Hann afplánar nú dóm í Kíel fyrir fíkniefnabrot. Maðurinn hefur neitað að tjá sig um mál Madeleine McCann. 

En eftir að þýska lögreglan tjáði sig um Christian B. og sagði hann liggja undir grun um að hafa rænt og drepið Madeleine hefur lögreglan upplýst um að annað barnshvarf sé til rannsóknar í Þýskalandi.

Fimm ára gömul stúlka sem nefnd er Inga í fjölmiðlum hvarf í bænum Schönebeck í  Saxland-Anhalt árið 2015. Inga hvarf sporlaust er hún var með fjölskyldu sinni í skógarferð og hefur ekkert spurst til hennar síðan. Er nú rannsakað hvort Christian B. hafi komið að hvarfinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert