BBC segir upp 450 starfsmönnum

Höfuðstöðvar BBC eru í Portland Place í London. Félagið hefur …
Höfuðstöðvar BBC eru í Portland Place í London. Félagið hefur tilkynnt um uppsögn 450 starfsmanna vegna nauðsynlegrar hagræðingar. AFP

Breska ríkisútvarpið, BBC, hefur kynnt áform um að segja upp 450 starfsmönnum á Englandi á næstu tveimur árum. Uppsagnirnar eru liður í hagræðingaraðgerðum stofnunarinnar, sem er gert að skera niður um 25 milljónir punda (4,3 ma.kr.) á ársgrundvelli fyrir mars 2022. PressGazette segir frá.

Um 142 störf verða skorin niður í netdeild og sjónvarpsdeild fyrirtækisins, en 139 missa vinnuna í svæðisbundnu útvarpi þar sem skertri dagskrá, sem tók gildi í heimsfaraldrinum, verður framhaldið. Þá verður útgáfu heimildarþáttarins Inside Out hætt, en þátturinn fjallar málefni líðandi stundar í nærumhverfinu og er gefinn út í 11 svæðisbundnum útgáfum.

Þættinum verður skipt út fyrir einn rannsóknarblaðamennskuþátt, sem gefinn verður út frá sex svæðisbundnum stórborgum: Newcastle, Yorkshire, Norwich, Birmingham, London og Bristol.

Um 3.000 manns starfa hjá BBC á Englandi og nema uppsagnirnar því um 15% af mannafla fyrirtækisins. Þær bætast við 150 uppsagnir sem tilkynnt var um í Wales, Skotlandi og Norður-Írlandi í síðustu viku.

Mun bitna á umfjöllun

Michelle Stainstreet, formaður Blaðamannafélags Bretlands (NUJ) er ómyrkur í máli. „Þetta er svakalegur niðurskurður sem mun óhjákvæmilega hafa áhrif á getu BBC til að halda úti umfangsmikilli og djúpri fréttaumfjöllun á Englandi, sem endurspeglar fjölbreytni þjóðarinnar,“ segir hann. „Við erum að ráðfæra okkar við félagsmenn um hvaða áhrif þetta mun hafa á afköst og að hvaða marki þetta mun auka álag á ritstjórn sem er þegar útkeyrð.“

 Miðillinn PressGazette heldur því fram að meðal þeirra sem sagt verði upp séu 33 af 36 starfsmönnum netdeildar BBC í Birmingham, sem fjallar um málefni nærsamfélagsins í Vestur-Miðhéruðunum en borgin er næstfjölmennasta borg landsins.

Tekjur dregist saman um 125 milljónir punda í COVID

Áætlanir um niðurskurðinn lágu þegar fyrir áður en kórónuveirufaraldurinn reið yfir heimsbyggðina, en þeim var slegið á frest vegna þessa.

Viðbúið er að tekjur félagins dragist saman um 125 milljónir punda (21,7 ma.kr.) á árinu vegna kórónukreppunnar þrátt fyrir að áhorf og notkun miðla félagsins sé í hæstu hæðum. Staða sem fjölmiðlar víða kannast við. 

Þrátt fyrir samdráttinn stefnir BBC að því að auka við stjórnmálaumfjöllun sína utan höfuðborgarinnar, til að mynda með því að endurræsa 11 stjórnmálaþætti um héraðstengd málefni, en þingmenn höfðu sumir hverjir haft áhyggjur af að þeir legðust af líkt og þátturinn Inside Out.

Í yfirlýsingu frá BBC segir að þættirnir muni „undirgangast ritstjórnarlegar og skapandi breytingar til að tryggja að þeir hafi meiri áhrif og nái til stærri áhorfendahóps“.

mbl.is