Cruise ræður 200 Norðmenn

Tom Cruise fær að koma til Noregs eftir allt saman …
Tom Cruise fær að koma til Noregs eftir allt saman með 200 manna lið og hyggst ráða 200 Norðmenn til viðbótar við tökur kvikmyndarinnar Mission Impossible 7 í Mæri og Raumsdal í ágúst en lokaatriði MI-6 var tekið á Preikestolen skammt frá Stavanger haustið 2017. AFP

Aðstandendur kvikmyndarinnar Mission Impossible 7, með stórleikarann Tom Cruise í broddi fylkingar, hyggjast ráða 200 Norðmenn til starfa þegar tökur á atriðum í myndinni hefjast í Mæri og Raumsdal síðari hluta ágústmánaðar.

Cruise hefur nú fengið undanþágu til að koma til Noregs sóttkvíarlaust í miðjum kórónuveirufaraldri en frá því var greint fyrr í sumar að hann hefði haft samband við forsætisráðuneytið og óskað eftir fundi með Ernu Solberg forsætisráðherra þar sem hann hygðist freista þess að koma með stóran hóp frá Bandaríkjunum, næstverst stadda ríki heimsbyggðarinnar í kórónufárinu, til að taka upp atriði fyrir þessa lífseigu njósnamyndaröð en Cruise hefur ekki farið í grafgötur með hrifningu sína af norskri náttúru síðan hann hékk utan á Preikestolen, skammt frá Stavanger, við tökur á Mission Impossible 6 í september 2017.

Forsætisráðherra lét sér fátt um finnast og vísaði erindinu yfir á menningarmálaráðherrann Abid Raja sem átti símtal við Cruise áður en gáttir Noregs opnuðust kvikmyndateyminu og kaus Olaug Bollestad landbúnaðarráðherra af einhverjum ástæðum að gera grein fyrir þessari afstöðu norskra stjórnvalda í löngu máli á sama blaðamannafundi og greint var frá bannfæringu Spánar og Andorra á föstudaginn fyrir viku eins og mbl.is fjallaði um í niðurlagi fréttar af því máli.

Kveður Raja menningarráðherra ekkert óeðlilegt við að aðstandendur Mission Impossible-myndanna fengju slíka undanþágu úr hendi norskra stjórnvalda, allir erlendir kvikmyndaframleiðendur sem nytu hvatningarstyrks Norsku kvikmyndastofnunarinnar (NFI) fengju undanþágu til að koma til Noregs án sóttkvíar en hvatningarstyrkur þessi, sem ætlað er að styðja við stærri kvikmyndaverkefni í Noregi, felst í endurgreiðslu allt að fjórðungs þess kostnaðar sem til fellur innanlands við gerð myndar, í þessu tilfelli 50 milljóna norskra króna (742 milljóna ISK), en Noregstökur Cruise og félaga munu kosta 200 milljónir (tæpa þrjá milljarða ISK).

Staðardagblaðið Åndalsnes Avis í Mæri og Raumsdal hefur í fórum sínum afrit af bréfi sem norska lögmannsstofan Bull & Co., fulltrúi Tom Cruise í Noregi, sendi viðskiptaráðuneytinu og tilgreinir hvernig starfsmannamálum verði háttað, en með Cruise kemur 200 manna starfslið og ofan á það ræður hann til starfa 200 Norðmenn.

Í bréfinu er einnig fjallað um þær sóttvarnakröfur sem norsk stjórnvöld gera og felast meðal annars í því að allt erlenda starfsliðið gangist undir kórónuskimun á 48 klukkustunda fresti allan dvalartímann og greiði sjálft kostnað þess, sex milljónir króna (89 milljónir ISK), auk þess að vera hólfað niður í fámennar einingar þegar tökur standa ekki yfir og koma ekki nálægt öðrum Norðmönnum en þeim sem starfa munu við myndina. Kröfur sem væru nánast efni í aðra kvikmynd.

VG (neðarlega í fréttinni má hlusta á símtal Tom Cruise og Abid Raja menningarmálaráðherra Noregs)

Åndalsnes Avis (greindi fyrst frá ráðningu 200 Norðmanna en rekur læsta áskriftarsíðu)

TV2

Stavanger Aftenblad

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert