Draumur í krús að taka MI 7 í Bergen

Tom vill krúsa en byr hlýtur að ráða. Framleiðendur Mission …
Tom vill krúsa en byr hlýtur að ráða. Framleiðendur Mission Impossible 7 vilja fá að taka atriði fyrir myndina í Bergen og nágrenni en sá hængur er þó á að stafnlíkan spennumyndaraðarinnar, Tom Cruise, má ekki koma til Noregs, eða Evrópu ef út í það er farið, eins og staðan er í kórónumálum á hans fósturjörð. AFP

Leikarinn góðkunni Tom Cruise hefur leitað til Ernu Solberg, forsætisráðherra Noregs, með það fyrir augum að fá að komast inn í Noreg til að taka þar upp atriði fyrir sjöundu Mission Impossible-myndina. Bandaríkjamenn eru hins vegar á lista hinna óæskilegu þjóða hvað snertir heimsóknir til Evrópu vegna stöðunnar í kórónumálum þar vestra.

Það virðist ekki hafa nægt þeim Mission Impossible-mönnum að taka upp lokaatriði Mission Impossible 6: Fallout á klettinum svipmikla Preikestolen, skammt frá Stavanger við vesturströnd landsins, í september 2017 með slíkum viðbúnaði að þessum vinsæla ferðamannastað var lokað dögum saman og þyrlum heimilað að lenda allt að 50 sinnum á klettinum sem er í 600 metra hæð yfir Lysefjorden og útsýni þaðan í samræmi við það.

Framleiðendur Mission Impossible 7 hafa mikinn áhuga á að taka upp atriði í myndinni í Noregi, að þessu sinni í Bergen og á fleiri stöðum við vesturströndina, og hafa sóst eftir þessu bréflega. Ráðgert er að þær tökur fari fram í september en tökum myndarinnar, sem hófust á Ítalíu í febrúar, var slegið á frest eins og svo mörgu öðru.

Raja allur af vilja gerður

True North Norway er þjónustufyrirtæki og um leið tengiliður í Noregi við erlenda kvikmyndaframleiðendur og segir framkvæmdastjóri þess, Per Henry Borch, í samtali við dagblaðið Bergens Tidende að vonir standi nú til þess að forsætisráðherra fallist á að hitta Tom Cruise á fundi þar sem liðkað verði fyrir því að hann og fleiri Bandaríkjamenn, sem starfa við myndina, fái að koma til Noregs vegna verkefnisins.

Dagblaðið Dagens Næringsliv innti Tor Aagaard Borgersen, skrifstofustjóra forsætisráðherra, eftir því hvort líklegt teldist að af fundi þessum yrði og taldi hann svo ekki vera. Beiðnin hefði hins vegar verið send áfram til ráðuneytis menningarmála, enda málaflokkurinn réttilega þess.

Menningarmálaráðherrann Abid Raja staðfestir við Bergens Tidende að vissulega séu viðræður í gangi. „Við höfum rætt við starfslið hans [Cruise] og okkar væri ánægjan að funda með honum. Eins vona ég að Erna Solberg geti hliðrað til á sinni dagskrá, en til er ég,“ segir Raja og kannski eðlilegt að hann finni til tengsla við Tom Cruise þar sem þeir hafa reyndar báðir hangið utan á Preikestolen í mörg hundruð metra hæð yfir sjávarfleti Lysefjorden, Cruise í Mission Impossible 6 en Raja í norska raunveruleikaþættinum 71 grader nord.

Næstu vikur leiða í ljós hvort Cruise og tökulið hans fái að koma til Bergen í haust eða hvort það verði hreinlega, eins og titill myndarinnar gefur til kynna, mission impossible.

NRK

Bergens Tidende

Dagens Næringsliv

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert