Á níræðisaldri að slá í gegn

Vinsælasta fólkið á samfélagsmiðlum í Taívan eru ekki áhrifavaldar á unglingsaldri heldur hjón á níræðisaldri. Hjónin reka þvottahús og brugðu á það ráð að setja upp tískusýningar á fatnaði sem fólk hefur ekki komið og sótt í þvottahúsið. 

Chang Wan-ji sem 83 ára og eiginkona hans, Hsu Sho-er, sem er 84 ára, hafa sankað að sér 600 þúsund fylgjendum á stuttum tíma og komið fram í tímaritum eins og Vogue og Marie Claire í Taívan. Þau hafa undanfarna áratugi rekið þvottahús í úthverfi Taichung. 

Með tímanum hafa safnast upp haugar af fötum sem fólk hefur ekki sótt í þvottahúsið og þau hafa aldrei viljað henda fötunum eða gefa þau ef það vildi svo til að þau yrðu sótt af eigendunum.  

Barnabarn þeirra, Reef Chang, sem er 31 árs, stakk nýverið upp á því að þau klæddu sig upp á í fötin og tækju upp myndskeið af fyrirsætustörfum þeirra.

„Afi og amma sátu aðgerðalaus og létu sér leiðast þar sem viðskiptin voru lítil,“ segir hann í viðtali við AFP-fréttastofuna. „Mig langaði að finna eitthvað nýtt fyrir þau að gera sem þau gætu haft gaman af.“

Þegar þau stilltu sér upp var eins og þau hefðu aldrei unnið við neitt annað en fyrirsætustörf. „Mér líður eins og ég hafi yngst um 30 ár við sýningarstörfin,“ segir Chang. „Enda segja margir við mig núna „Þið eruð fræg og þú lítur út fyrir að vera yngri.“.“ Kona hans tekur undir þetta. „Ég er kannski gömul í árum talið en hjarta mitt eldist ekki,“ segir Hsu. „Mér finnst gaman að klæða mig í falleg föt og fara út og skemmta mér.“

Hsu segir að vegna nýja starfans hafi hún farið að leita í eigin fataskápum og fundið föt sem hún var löngu búin að gleyma að hún ætti. „Ég fann jafnvel föt sem ég keypti fyrir 30 árum og það var afar ánægjulegt að komast enn í þau.“

Sonarsonur þeirra Reef sér um aðgang þeirra á Instagram @wantshowasyoung og á hann ekki von á öðru en að afi hans og amma taki sig til og læri á samfélagmiðla núna. Í síðustu viku fjölgaði fylgjendum um 400 þúsund og bréf berast alls staðar að úr heiminum. 

mbl.is