Biden verður ekki viðstaddur flokksþingið

Joe Biden, fyrrum varaforseti Bandaríkjanna.
Joe Biden, fyrrum varaforseti Bandaríkjanna. AFP

Joe Biden verður ekki viðstaddur flokksþing demókrata og mun þar af leiðandi ekki taka við tilnefningu flokksins til að verða forsetaefni demókrata í persónu.  

Í tilkynningu frá demókrataflokknum segir að Biden muni ekki ferðast til Milwaukee fyrir flokksþingið heldur mun hann þess í stað ávarpa þjóðina og taka við tilnefningunni frá heimili sínu í Delaware. Þar af leiðandi verða engir ræðumenn viðstaddir þingið sem á að fara fram 17.-20. ágúst og verður að öllu leyti rafrænt. 

„Við tókum mark á vísindunum, við hlustuðum á lækna og sérfræðinga og við héldum áfram að gera breytingar á áformum okkar til að vernda líf annarra,“ segir Tom Perez, talsmaður demókrataflokksins. 

Búast má við því að Biden tilkynni um varaforsetaefni sitt á næstunni, en hann hefur heitið því að það verði kona. Susan Rice og Kamala Harris þykja líklegastar. 

mbl.is